Miðherjinn Alonzo Mourning hjá Miami Heat í NBA kann að hafa spilað sinn síðasta leik á ferlinum í nótt þegar liðið tapaði fyrir Atlanta í framlengdum leik. Mourning meiddist illa á hné og var borinn af velli.
Mourning er 37 ára gamall og hefur þegar tilkynnt að þetta sé hans síðasta tímabil í NBA deildinni. Það kom ekki til greina fyrir þennan stóra og stæðilega miðherja að láta bera sig af velli á börum í því sem hugsanlega gæti verið hans síðasti leikur á ferlinum.
"Ég sá það ekki fyrir mér að ljúka keppni á þann hátt og ég hefði skriðið af velli ef ég hefði þurft að gera það. Ég fer ekki af velli á börum í mínum síðasta leik ef svo ber undir," sagði Mourning. Meiðsli á borð við þau sem Mourning varð fyrir í nótt gera það að verkum að hann þarf í aðgerð sem kosta venjulega þrjá mánuði frá keppni.
Mourining er á sínu 15. ári í deildinni og þar af hefur hann spilað 11 ár með Miami. Hann hefur sjö sinnum verið valinn í stjörnuliðið og tvisvar verið kjörinn varnarmaður ársins.