Viðskipti innlent

Jarðvarmaklasanum sett tíu aðalmarkmið

Alls 60 ólíkir aðilar hafa komið að greiningu á íslenska jarðvarmaklasanum.
Alls 60 ólíkir aðilar hafa komið að greiningu á íslenska jarðvarmaklasanum.
Stofnað hefur verið til formlegs samstarfs meðal fyrirtækja innan íslenska jarðvarmaklasans um framþróun og vöxt hans á næstu árum. Frá þessu var gengið formlega á fundi í Arion banka í gær en þar var einnig kynnt skýrslan Virðisauki í jarðvarma sem fjallar um klasann og þá möguleika sem í honum felast.

Stofnaðilar eru alls um 20 en meðal þeirra eru Landsvirkjun, HS Orka, GEORG, Mannvit, Íslandsbanki, Samtök iðnaðarins, KPMG og Arion banki.

Í skýrslunni eru skilgreind tíu samstarfsverkefni sem miða að uppbyggingu klasans á næstu árum. Höfundar skýrslunnar eru Hákon Gunnarsson og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir hjá fyrirtækinu Gekon.

Verkefnin eru af margvíslegum toga en þau miða meðal annars að því að auka samkeppnishæfni greinarinnar og verðmætasköpun í henni, auðvelda fjármögnun verkefna, stuðla að tækniframförum og styrkja ímynd landsins.

Verkefnin verða unnin á tímabilinu júlí 2011 til desember 2012 en þá verður árangur þeirra metinn og ákvarðanir teknar um frekari þróun samstarfsins.

Íslenski jarðvarmaklasinn var á síðasta ári kortlagður af Dr. Michael Porter og Dr. Christian Ketels í samvinnu við Gekon. Porter veitir forstöðu Samkeppnishæfnistofnun við Harvard Business School og er einn helsti fræðimaður heims á sviði stefnumótunar og samkeppnishæfi þjóða. Porter flutti erindi á fundinum í gær.

Niðurstaða greiningarinnar á jarðvarmaklasanum var að mikil tækifæri lægju í þróun hans á næstu árum og áratugum. Þá var bent á þrjú stór vaxtartækifæri. Fyrir það fyrsta að laða til landsins orkuháða starfsemi. Þá séu miklir möguleikar á útflutningi jarðvarmaorku verði lagður sæstrengur til Evrópu. Og loks sé töluverð sérfræðiþekking innan íslenska klasans sem flytja megi út.

Frá því að greiningin var kynnt í haust hefur verið unnið að mótun formlegs samstarfs sem nú hefur verið gengið frá.

magnusl@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×