Viðskipti innlent

Eignir innlánsstofnana lækka um 6,4 milljarða

Heildareignir innlánsstofnana námu 2.761 milljörðum kr. í lok maí 2011 og lækkuðu um 6,4 milljarða kr. frá apríl.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans. Þar segir að innlendar eignir námu 2.469 milljörðum kr. og lækkuðu um 7,4 milljarða kr. Erlendar eignir námu 292 milljörðum kr. og hækkuðu um 1 milljarð kr. á milli mánaða.

Heildarskuldir innlánsstofnana námu 2.313 milljörðum kr. og hækkuðu um 4,6 milljarða kr. frá apríl. Innlendar skuldir námu 2.130 milljarða kr. og hækkuðu um 10 milljarða kr. frá fyrri mánuði. Erlendar skuldir lækkuðu um 5,2 milljarða kr.  og stóðu í 182 milljarða kr. í lok mánaðarins. Eigið fé innlánsstofnana nam 448 milljörðum kr. í lok maí.

Útlán Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og NBI hf. eru í þessum tölum metin á kaupvirði þ.e. því virði sem þessir aðilar keyptu útlánasafnið á af fyrirrennurum sínum. Lánasöfnin eru endurmetin reglulega sem getur leitt til hækkunar eða lækkunar á virði einstakra lána. Breytingar á útlánasafni þessara aðila geta því stafað af endurmati á virði lána eða af raunverulegum lánahreyfingum.

Seðlabankinn hefur nú samræmt gögn um útlán og niðurfærslur bankanna þriggja sem urðu til í október 2008. Þessi samræming leiðir til þess að höfuðstóll útlána þessara þriggja aðila hækkar, frá fyrri birtingu gagnanna, ásamt framlagi á niðurfærslureikning þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×