Viðskipti innlent

Ásókn í störf hjá álverunum

Sumarvinna er ekki sjálfsögð eins og kemur fram í fjölda umsókna um sumarstörf álveranna á Reyðarfirði og á Grundartanga. Samsett mynd/Rósa.
Sumarvinna er ekki sjálfsögð eins og kemur fram í fjölda umsókna um sumarstörf álveranna á Reyðarfirði og á Grundartanga. Samsett mynd/Rósa.
Alcoa og Norðurál, sem starfrækja álverin á Reyðarfirði og á Grundartanga, þurftu að hafna mörg hundruð manns sem sóttu um sumarvinnu í álverunum í sumar. Fimm sóttu um hvert starf sem Fjarðaál auglýsti. Norðurál takmarkaði auglýsingar um störf við Vesturland vegna aðsóknar undanfarinna ára.

Í sumar eru um eitt hundrað ungmenni í sumarvinnu í álverinu á Reyðarfirði en 165 hjá álverinu á Grundartanga.

Elín Jónsdóttir, sérfræðingur í mannauðsteymi Fjarðaáls, segir að fyrirtækinu hafi borist um 500 umsóknir. Flestar hafi verið frá framhalds- og háskólanemum á aldrinum átján til 25 ára. Sex af hverjum tíu koma af Austurlandi en 40 prósent úr öðrum landshlutum.

„Þessir krakkar koma víðs vegar að en þau eiga flest tengingu hingað á svæðið. En þetta er gríðarlegur fjöldi sem sýnir þessari vinnu áhuga,“ segir Elín. Hún segir jafnframt að á umsækjendum sé að heyra að litla vinnu sé að fá og margir njóti þess að hafa unnið áður hjá fyrirtækinu.

Mikið er talað um samfélagsleg áhrif þess að stór fyrirtæki rísi. Elín segir að þessu megi finna stað enda sé alltaf viss hópur sem ílengist eftir að hafa unnið í álverinu með skóla. „Sumir verða um kyrrt af því að það er erfiðara fyrir marga að fara í skóla þar sem þeir njóta ekki sama stuðnings frá foreldrum sínum og þeir gerðu fyrir hrun.“

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir að sumarstörf hafi aðeins verið auglýst á Vesturlandi en reynsla liðinna ára sýni að þegar auglýst sé á landsvísu sæki fimm til sex um hvert starf. Þrátt fyrir takmarkaðar auglýsingar sóttu vel yfir 300 manns um 165 sumarstörf hjá fyrirtækinu.

Stefna Norðuráls er að starfsfólk komi sem mest úr nágrannabyggðum en um 80 prósent starfsmanna eru búsett á Akranesi, í Borgarnesi og nærsveitum. Þessi stefna nær einnig yfir ráðningar sumarstarfsfólks.

„Þessi störf hjá okkur eru umsetin enda möguleiki á ágætis tekjum yfir sumarið,“ segir Ragnar sem bætir við að hluti starfsfólksins hafi menntað sig í beinu sambandi við sumarstörf í álverinu og skili sér seinna sem menntaðir fastráðnir starfsmenn.

svavar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×