Erlent

Vilja ekki að Dalai Lama verði heiðursborgari í París

Kínversk stjórnvöld hafa varað þau frönsku við að gera Dalai Lama að heiðursborgara í París. Þau segja að það myndi vekja mikla reiði hjá kínversku þjóðinni. Dalai Lama kemur í heimsókn til Íslands í sumar.

Kínverjar agnúast út í öll lönd sem hleypa hinum útlæga leiðtoga Tíbeta inn fyrir landamæri sín. Og verða því reiðari sem honum er meiri sómi sýndur.

Á síðasta ári hættu Kínverjar við þátttöku í ráðstefnu Evrópusambandsins þar sem Frakkar voru gestgjafar, vegna þess að Nixolas Sarkozy forseti hafði átt fund með Dalai Lama.

Fyrir ári ákvað borgarstjórn Parísar að gera leiðtogann að heiðursborgara. Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins sagði á blaðamannafundi að kínverska þjóðin hefði reiðst mjög þeirri ákvörðun.

Dalai Lama kemur í heimsókn til Frakklands í næst mánuði og fær þá væntanlega afhenta lyklana að París. Af því tilefni hafa kínversk stjórnvöld sent þeim frönsku aðvörun.

Dalai Lama kemur einnig í heimsókn til Íslands í sumar. Má búast við að íslensk stjórnvöld fái skilaboð úr austurvegi vegna þess.

Sú var allavega raunin þegar sendinefnd frá Taiwan kom til Íslands fyrir nokkrum árum. Kínverjar líta á Taiwan sem sína eign og kunna því illa ef fulltrúar þaðan hljóta einhverja viðurkenningu á alþjóðavettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×