Erlent

Kennir stjórnvöldum um eitrunina

"Þetta er verk ríkisstjórnarinnar," sagði Viktor Júsjenkó, forsetaframbjóðandi í Úkraínu, þegar hann sakaði keppinauta sína um að hafa eitrað fyrir sér. Orð sín lét hann falla þegar hann sneri heim til Kiev eftir að hafa fengið staðfest hjá austurrískum læknum að eitrað hefði verið fyrir honum. "Ef ríkissaksóknari heldur sig við lögin og starfar í samræmi við þau komast Úkraína og heimsbyggðin fljótlega að því hver gerði þetta," sagði Júsjenkó sem vildi ekki nefna ákveðna einstaklinga. "Þetta er mjög viðkvæm spurning og það ætti enginn að saka nokkurn um eitt eða neitt að svo stöddu, þetta ætti að ráðast af rannsókninni." Ríkissaksóknari Úkraínu hóf í gær nýja rannsókn á eitruninni. Fyrri rannsókn lauk án þess að saksóknari kæmist að nokkru sakhæfu athæfi. 26. desember etur Júsjenkó kappi við Viktor Janúkovitsj forsætisráðherra í endurtekinni seinni umferð úkraínsku forsetakosninganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×