Viðskipti innlent

Íslensku bankarnir eiga stóran hlut af 21 milljarða punda tapi

Tap innistæðutryggingarsjóðs Breta (FSCS) nam 21 milljarði punda, eða 4.400 milljarða kr. á sex mánaða tímabili eftir bankahrunið s.l. haust. Íslensku bankarnir í Bretlandi eiga stóran hlut af þessu tapi.

Í frétt um málið á Timesonline segir að samkvæmt upplýsingum frá FSCS voru þrír af þeim fimm bönkum, sem sjóðurinn þurfti að borga mest vegna hruns þeirra, í íslenskri eigu. Þetta voru Heritable og Icesave sem voru í eigu Landsbankans og Singer & Friedlander sem var í eigu Kaupþings. Hinir tveir bankarnir eru Bradford & Bingley og London Scottish Bank.

Fram kemur í fréttinni að FSCS þurfti að endurgreiða samtals 3,5 milljón breskum innistæðueigendum tap þeirra vegna bankahruns. Innistæðutryggingin nær til allt að 50.000 punda á hvern reikning.

Fyrrgreind upphæð, 21 milljarður punda er margföld á við þá sem FSCS hefur nokkurntíman þurft að greiða út á svo skömmum tíma. Til samanburðar má nefna að síðustu sjö árin fram að bankahruninu námu þessar greiðslur samtals einum milljarði punda.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×