Erlent

Sum þorp enn án hjálpar

Neyðarhjálp nær ekki til afskekktra þorpa á Srí Lanka þar sem stjórnvöld og hjálparstofnanir forgangsraða aðstoðinni. Nálykt liggur enn í loftinu í þorpi nálægt höfuðborginni þar sem 1400 manns fórust í járnbrautarlest sem fór á kaf í flóðunum annan í jólum. Meðfram vesturströnd Srí Lanka er nánast ekkert að sjá nema rústir. Búddalíkneski vakir yfir rústum lestarstöðvar en verndin virðist ekki hafa náð til farþega lestar sem stendur utan við þær. Íbúar í grendinni leituðu skjóls í lestinni en vatnsyfirborðið hækkaði og hækkaði sem endaði með því að 1400 manns, sem í lestinni voru, fórust. Fólk í nokkrum afskekktum þorpum í landshlutanum höfðu enga aðstoð fengið þegar hópur sjálfboðaliða mætti á svæðið á dögunum til að veita fyrstu hjálp og deila matvælum. Að sögn eins sjálfboðaliðanna fer hjálparfólkið þarna í gegn en það heldur áfram til stærri borganna. Það kann að virðast undarlegt að þorp sem er ekki fjarri höfuðborginni, Kólombó, skuli ekki hafa hlotið neina aðstoð. En staðreyndin er sú að stjórnvöld og hjálparstofnanir þurfa að forgangsraða og víða annars staðar er ástandið miklu verra. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×