Viðskipti innlent

Aukið samstarf fyrirtækja lykillinn

Haraldur Guðmundsson skrifar
Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, segir mörg spennandi verkefni í burðarliðnum. Þar á meðal eru verkefni sem tengjast fullvinnslu aukaafurða úr sjávarútvegi.
Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans, segir mörg spennandi verkefni í burðarliðnum. Þar á meðal eru verkefni sem tengjast fullvinnslu aukaafurða úr sjávarútvegi. Fréttablaðið/Arnþór.
„Við stefnum að því að hafa alla virðiskeðjuna í íslenskum sjávarútvegi hérna inni og þessi stækkun á húsnæðinu er liður í átt að því markmiði,“ segir Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Íslenska sjávarklasans.

Þessa dagana er unnið að því að bæta við skrifstofurými í húsnæði sjávarklasans úti á Granda þar sem fimmtán fyrirtæki verða með vinnuaðstöðu til viðbótar við þau fimmtán sem þar eru fyrir. Að sögn Þórs stendur einnig til að opna þar stórt kaffihús með svölum sem snúa út að Reykjavíkurhöfn.

Ólík fyrirtæki vinna saman

„Þegar nýja skrifstofurýmið verður tilbúið verðum við með um þrjú þúsund fermetra af húsnæði fyrir um 50 fyrirtæki sem öll eru í haftengdri starfsemi með einum eða öðrum hætti. Eins og ég hef áður sagt er þetta hús eins og sjávarútvegssýning sem er opin allt árið,“ segir Þór.

Sem dæmi um hversu ólík fyrirtækin í Húsi sjávarklasans eru nefnir Þór að þar megi bæði finna fyrirtæki sem vinna snyrtivörur úr sjávarfangi og önnur sem þróa flókinn tæknibúnað fyrir fiskiskip.

„Minni frumkvöðlafyrirtækin sem hafa aðstöðu hér í húsinu tala mikið um þá aðstoð og ráðgjöf sem þau hafa fengið frá stærri fyrirtækjunum. Samstarf þessara ólíku fyrir­tækja eykur á endanum verðmæti þeirra,“ segir Þór.

Hann segir að sér þyki áhugavert að nokkur fyrirtæki úr skipaverkfræði og tengdum greinum hafi sótt um aðstöðu í húsinu.

„Það er grein sem ég vona að eflist á komandi árum. Greinin hefur alla burði til þess enda eiga Íslendingar fullt af færu tæknifólki sem býr að reynslu í tæknilausnum fyrir fiskiskip. Það er mikilvægt að íslensk þekking verði til staðar við þróun og smíði fiskiskipa því greinin má ekki deyja út.“

Verkefni verða að fyrirtækjum

Íslenski sjávarklasinn vinnur að sögn Þórs að ýmsum ólíkum verkefnum hverju sinni. Fimm verkefni sem rekja uppruna sinn til klasasamstarfsins hafa á undanförnum mánuðum orðið að fyrirtækjum sem eru að mörgu leyti komin úr höndum klasans.

„Ég get nefnt sem dæmi verkefnið Codland, sem í dag er fullvinnslufyrirtæki á Suðurnesjum. Það var áður lítið verkefni sem hófst hér innan klasans en er nú í höndum útgerðarfyrirtækjanna Þorbjarnar og Vísis í Grindavík,“ segir Þór og bætir því við að Codland hafi í síðasta mánuði fengið viðurkenningu fyrir bestu kynninguna á fundi European Food Venture Forum í Árósum í Danmörku.

„Sú viðurkenning sýnir ásamt öðru að það er mikill áhugi á íslenskri fullvinnslu og þeirri staðreynd að við erum að fullvinna meira af okkar aukaafurðum en aðrar þjóðir.“

Þegar tal berst að fullvinnslu aukaafurða úr sjávarútvegi segir Þór að hann sé á þeirri skoðun að hún sé vaxtarbroddur íslensks sjávarútvegs.

„Ef við skoðum vöxtinn í fullvinnslu aukaafurða, líftækni og tæknifyrirtækjum sem eru að framleiða tækni- eða hugbúnað fyrir sjávarútveg, var hann á bilinu þrettán til sautján prósent á síðasta ári. Árið áður var með sambærilegum hætti og ef við höldum þessu áfram getur það þýtt að innan fimmtán ára verði útflutningsverðmæti þekkingar frá þessum fyrirtækjum orðið svipað og útflutningsverðmæti hefðbundinna sjávarafurða.“

Nýr sjávarútvegur nái fótfestu

Þór segir íslensk útgerðarfyrirtæki sýna því aukinn áhuga að koma af fullum krafti inn í fullvinnslu aukaafurða.

„Ég spái því að innan áratugar verði útgerðarfyrirtækin orðin öflugir aðilar á heilsu- og lyfjamarkaði. Stjórnendur íslenskra útgerðarfyrirtækja geta orðið forystumenn í nýjum sjávarútvegi þar sem aukaafurðir verða að heilsubótarefnum eða lyfjum. Ég er sannfærður um að nýi sjávarútvegurinn sé að ná fótfestu og það sést í öllum tölum.“

Þór og starfsfólk sjávarklasans hafa teiknað upp mynd af því hvernig þau sjá fyrir sér þróunina á næstu árum þegar kemur að þessum nýja sjávarútvegi. Myndin sýnir lagskiptan píramída þar sem hefðbundinn sjávarútvegur er grunnstoð píramídans. Ofan á hann koma síðan, í þessari röð, hefðbundin fiskvinnsla, matvæli, fæðubótarefni, snyrtivörur, heilsufæði og lyf.

„Málið er að það er verið að vinna að nýjum sjávarútvegi á öllum þessum sviðum. Það sem er áhugavert við þessa mynd er að því ofar sem við komum í píramídanum því meiri líkur eru á að við séum að skapa aukin verðmæti og áhugaverð störf fyrir komandi kynslóðir. Þróunin síðustu ár hefur verið á þá leið að efstu lög píramídans hafa verið að ná aukinni fótfestu hér á landi.“

Til að skýra mál sitt enn frekar bendir Þór á raunveruleg dæmi af landsbyggðinni.

„Þessi nýi sjávarútvegur hefur náð fótfestu á stöðum eins og Siglufirði þar sem rekinn er öflugur heilsu- og lyfjageiri sem byggir á aukaafurðum úr sjávarútvegi. Þróunin á Suðurnesjum, þar sem Grindavík er í fararbroddi, er annað dæmi um þetta.“

Starfsmenn sjávarklasans vinna nú að sögn Þórs að því að kortleggja landið eftir því hvar þessi nýi sjávarútvegur hefur náð fótfestu. „Ég hef trú á því að fyrirtæki sem tileinka sér þennan nýja sjávarútveg eigi eftir að hafa mikil áhrif á vöxt sinna sveitar­félaga.“

Öflugt flutninganet mikilvægt

Annað stórt verkefni sem starfsmenn Íslenska sjávarklasans hafa unnið að að undanförnu er gerð heildstæðrar stefnu um flutninga- og hafnarmál.

„Eins og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði einu sinni þá er Ísland með eitt öflugasta flutninganetið á norðurslóðum. Því vaknaði upp sú spurning innan klasans hvernig fyrirtæki innan hans ætla að nýta sér það flutninganet. Við sjáum fyrir okkur að með öflugu flutninganeti geti fyrirtæki farið að flytja heim vörur eða afurðir í auknum mæli, afurðir sem er hent í mörgum öðrum löndum, en við vinnum úr þeim snyrtivörur og lyf og flytjum út.“

Þór bendir á að fyrirtæki eins og Lýsi hafi á undanförnum árum flutt aukaafurðir til landsins sem síðan eru notaðar í tilbúnar útflutningsvörur.

„Þar gegnir flutninganetið lykilhlutverki og það sýnir aftur hvernig þessar greinar innan sjávarklasans eru samofnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×