Viðskipti innlent

Útlánavextir ÍLS gætu lækkað um 0,2-0,4 prósentustig

Útboð Íbúðalánasjóðs (ÍLS) í dag gæti leitt til þess að útlánavextir sjóðsins myndi lækka um 0,2-0,4 prósentustig. Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Íbúðalánasjóður (ÍLS) tilkynnti í morgun um þriðja útboð sitt á íbúðabréfum á þessu ári. Stefnir sjóðurinn að því að taka tilboðum í allt að 3 milljarða kr. bréfa að nafnvirði.

Greining segir að tímasetning útboðsins sé skiljanleg í ljósi þess að krafa íbúðabréfa hefur snarlækkað það sem af er maímánuði. Er krafa lengri flokkanna nú svipuð og í upphafi árs, en krafa stysta flokksins, HFF14, er u.þ.b. prósentustigi hærri en um áramót.

Verðtryggð krafa hefur raunar hækkað nokkuð það sem af er degi í fremur takmörkuðum viðskiptum. Ekki virðist hins vegar enn lát á kröfulækkun ríkisbréfa og hefur verðbólguálag því lækkað nokkuð frá lokum föstudags.

Greining telur líklegt að ÍLS einbeiti sér að lengstu íbúðabréfaflokkunum í útboðinu nú. Bæði má gera að því skóna að meðallíftími eignahliðar sjóðsins sé að hækka vegna þeirra úrræða sem sjóðurinn hefur yfir að ráða til að koma til móts við skuldara í greiðsluvandræðum, og eins er líklegt að mikil áhersla sé nú á að ná niður vöxtum á íbúðalánum enda horfur á íbúðamarkaði bágar. Útlánavextir ÍLS eru nú 4,9% fyrir lán með uppgreiðsluákvæði, en 5,4% fyrir lán án slíks ákvæðis.

„Miðað við kröfu lengstu íbúðabréfaflokkanna þegar þetta er ritað gæti sjóðurinn væntanlega lækkað útlánavexti sína um 0,2 - 0,4 prósentustig eftir útboð dagsins, kjósi hann að taka eingöngu tilboðum í lengstu ríkisbréfaflokkana," segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×