Viðskipti innlent

Segja sölu Landsbankans á hlut í BYR spillingu

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Skilanefnd Landsbankans seldi 2,6% hlut í Byr til lítils fjárfestingafélags rúmri viku fyrir aðalfund. Endurskoðandi félagsins er formaður skilanefndarinnar. Salan lyktar af atkvæðasmölun og spillingu segja stofnfjáreigendur.

Landsbankinn varð stærsti hluthafi BYRS þegar 7,5% hlutur Imons, félags í eigu athafnamannsins Magnúsar Ármanns, var tekinn yfir vegna skulda. Við það varð gamli Landsbankinn eigandi bréfanna og hafa þau verið í umsjón skilanefndar bankans.

Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er engum heimilt að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, hvort sem yfirráð yfir atkvæðarétti byggjast á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðs. Aðalfundur BYRS verður haldinn eftir tvo daga en í síðustu viku seldi skilanefnd Landsbankans félaginu Reykjavik Invest 2,6% af hlut sínum í sparisjóðnum og heldur eftir rétt tæpum 5%.

Við þessi viðskipti fær Reykjavik Invest, sem er lítið fjárfestingarfélag, atkvæðarétt á aðalfundinum en Landsbankinn hefði ekki getað nýtt sér hann. Eigandi Reykjavik Invest er Arnar Bjarnason og býður hann sig fram til stjórnar BYRS. Hann vildi ekki gefa upp kaupverðið eða hvernig kaupin hefðu verið fjármögnum. Endurskoðandi Reykjavik Invest er Lárus Finnbogason, formaður skilanefndar Landsbankans.

Hann vildi ekki tjá sig um málið en sagðist víkja sæti ef um hagsmunaárekstra væri að ræða. Fréttastofa ræddi í dag við nokkra stofnfjáreigendur í BYR sem eru afar ósáttir við þessi viðskipti. Óeðlilegt sé að skilanefndin sé að beita sér í atkvæðasöfnun fyrir aðalfund og það væri í raun hámark spillingarinnar.

Jón Kr. Sólnes, sem býður sig fram sem formaður stjórnar BYRS sagði í samtali við fréttastofu að honum finnist ekki eðlilegt að skilanefnd Landsbankans sé að beita sér með þessum hætti ef það er gert til að nýta atkvæðaréttin til fulls.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×