Viðskipti innlent

FME skoði sölu Landsbankans á BYR-hlut

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í kvöld að ef einhver misbrestur væri á sölu Landsbankans á 2,6% hlut í BYR hljóti það að vera eitthvað sem Fjármálaeftirlitið muni skoða. Fréttastofa sagði frá því fyrr í kvöld að bankinn hefði selt umræddan hlut til félags sem heitir Reykjavík Invest. Formaður skilanefndar Landabankans, Lárus Finnbogason, er endurskoðandi félagsins. Hann vildi ekki gefa upp kaupverðið né hvernig hluturinn var fjármagnaður í samtali við fréttastofu.

Jóhanna var fyrst að heyra af málinu í fréttum Stöðvar 2 í kvöld en hún var gestur í Íslandi í dag í kvöld. Hún sagði þessa ríkisstjórn leggja áherslu á gegnsæi og að koma í veg fyrir hagsmunatengingar.

„Við hljótum að fara ofan í þetta," sagði Jóhanna.

Hún sagði einnig að mál sem þessi væru fyrst og fremst í höndum skilanefndanna og þeim þyrfti að treysta.

„Ef þarna er einhver misbrestur hlýtur það að vera eitthvað sem Fjármálaeftirlitið skoðar."






Tengdar fréttir

Segja sölu Landsbankans á hlut í BYR spillingu

Skilanefnd Landsbankans seldi 2,6% hlut í Byr til lítils fjárfestingafélags rúmri viku fyrir aðalfund. Endurskoðandi félagsins er formaður skilanefndarinnar. Salan lyktar af atkvæðasmölun og spillingu segja stofnfjáreigendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×