Viðskipti innlent

Marel nálægt væntingum

Marel hagnaðist um 1,8 milljónir evra (145 milljónir króna) á fyrsta ársfjórðungi. Uppgjörið er aðeins undir væntingum greiningaraðila en félaginu hafði verið spáð að 1,89 milljónum evra (152 milljónir króna) að meðaltali í hagnað. Hagnaður fyrir sama árshluta árið 2004 var nítján prósentum minni. Hagnaður á hvern hlut var 0,77 evru cent og arðsemi eigin fjár um 21,7 prósent sem er svipuð tala og í fyrra. Salan jókst um nær fimmtung. Rekstarskilyrði Marels eru að mörgu leyti erfið vegna sterkrar stöðu krónunnar og óhagstæðrar þróunar annarra gjaldmiðla. Tekjur félagsins eru að mestu í erlendri mynt en kostnaður í íslenskum krónum og gæti framlegð af vörusölu, sem er um 35 prósent, lækkað fyrir vikið. Afkoman af rekstri dótturfélagsins Carnitech í Danmörku er enn slök og nokkur tími mun líða þar til hann verði kominn í gott horf en mun betri gangur var hjá Marel-félögunum sem eru staðsett í tíu löndum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×