Erlent

Bandaríkjamenn biðjast afsökunar

Sært barn á sjúkrahúsi Tugir almennra borgara höfðu leitað skjóls undan átökunum þegar Bandaríkjaher gerði loftárás á mánudag.Nordiphotos/afp
Sært barn á sjúkrahúsi Tugir almennra borgara höfðu leitað skjóls undan átökunum þegar Bandaríkjaher gerði loftárás á mánudag.Nordiphotos/afp

Blóðug loftárás Bandaríkjahers á almenna borgara í Afganistan varpaði skugga á fund Baracks Obama Bandaríkjaforseta með forsetum Afganistans og Pakistans, sem heimsóttu hann í Hvíta húsið í gær.

Hamid Karzai, forseti Afganistans, hefur ítrekað gagnrýnt Bandaríkjaher fyrir árásir sem þessa og gerði atburðina á mánudag að meginefni viðræðna þeirra.

Hillary Clinton utanríkisráðherra sagði í gær að Bandaríkjamenn sæju innilega eftir því sem gerðist.

Fulltrúar Rauða krossins komu á vettvang árásarinnar á þriðjudag og staðfestu að tugir manna hefðu farist, þar á meðal konur og börn. Fyrrverandi embættismaður stjórnarinnar í Afganistan fullyrti að árásin hefði kostað 120 manns lífið.

Loftárásin var gerð í Bala Baluk í Farah-héraði á mánudagskvöld, stuttu eftir að hópur talibana hafði safnast saman í héraðinu, sem er í vestanverðu landinu, við landamæri Írans. Átök brutust út og svo virðist sem fólkið sem lést hafi leitað skjóls undan átökunum, en varð síðan fyrir bandarísku sprengjunum.

Hörð átök í norðvesturhéruðum Pakistans settu einnig svip sinn á fundinn í Washington. Pakistanskar hersveitir réðust á uppreisnarlið talibana, sem hafði náð völdum í Swat-dal og Buner-héraði.

Talið er að talibanar hafi þar yfir um sjö þúsund manna liði að ráða, en ríkisherinn er með 15 þúsund manns.

Talibanar búa sig undir hörð átök og ætla ekkert að gefa eftir: „Vopnaðir bardagamenn hafa komið úr felum inn í borgirnar og hafa hertekið bæði borgaraleg hús og opinberar byggingar,“ sagði í tilkynningu frá stjórnarhernum.

Barack Obama hefur lagt mikla áherslu á ástandið í Afganistan og Pakistan, þar sem talibanar og aðrir uppreisnarhópar hafa reynst erfiðir, bæði stjórnvöldum beggja ríkjanna og erlenda herliðinu í Afganistan.

Robert Gates varnarmálaráðherra kom í gær til Kabúl, höfuðborgar Afganistans, til að kynna sér aðstæður.

„Við höfum nýja stefnu, nýja hernaðaraðferð, nýjan sendiherra og við erum að senda marga nýja hermenn þangað, og ég vil bara fara á staðinn og kynna mér hvað þeir eru að gera,“ sagði Gates í Sádi-Arabíu í gær, áður en hann hélt upp í flugvélina sem flutti hann til Afganistans.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×