Erlent

Verður kynnt innan sex vikna

Blair í Jeríkó Segir óhætt að fyllast bjartsýni, þrátt fyrir andstöðu Ísraelsstjórnar við kröfur Palestínumanna. fréttablaðið/AP
Blair í Jeríkó Segir óhætt að fyllast bjartsýni, þrátt fyrir andstöðu Ísraelsstjórnar við kröfur Palestínumanna. fréttablaðið/AP

Bandaríkjastjórn vinnur nú að því, í samvinnu við alþjóðlega samningafulltrúa, að leggja drög að nýrri nálgun að friðarsamningum við Ísrael.

Þetta segir Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, sem undanfarin tvö ár hefur verið alþjóðlegur sendifulltrúi í málefnum Mið-Austurlanda.

Samningaferlið hefur verið í hnút og ekkert þokast. Tilraunir Bandaríkjastjórnar til að koma samningum í höfn áður en George W. Bush léti af embætti í ársbyrjun skiluðu engum árangri.

„Við erum að fá nýja samningsumgjörð,“ sagði Blair. „Núna get ég aðeins verið með vangaveltur um það hvað sú umgjörð gengur út á, en ástæðan fyrir því að ég segi að fólk eigi að gera sér meiri vonir er sú, að þetta er samningsumgjörð sem unnið er að á hæstu stigum bandarískrar stjórnsýslu og annars staðar í alþjóðasamfélaginu.“

Blair fullyrðir að nýju hugmyndirnar verði kynntar innan sex vikna.

Blair hefur starfað í Mið-Austurlöndum á vegum Kvartettsins svonefnda, sem er samstarfsvettvangur Sameinuðu þjóðanna, Evrópusambandsins, Bandaríkjanna og Rússlands um friðarsamninga í Mið-Austurlöndum. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×