Innlent

Segja hagsmuni íbúa ekki hafa verið í fyrirrúmi

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Fjölmenni var á stofnfundinum í gær.
Fjölmenni var á stofnfundinum í gær. Fréttablaðið/Valli
„Við höfum ekki á tilfinningunni að verið sé að vinna með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi og finnst það dapurt og illa farið með gamla fólkið,“ segir Sigrún Kjartansdóttir, aðstandandi íbúa á hjúkrunarheimilinu Eir. Í gærkvöldi voru stofnuð hagsmunasamtök íbúaréttarhafa á Eir.

„Íbúum var útvegaður lögmaður sem stjórn Eirar valdi og hún hefur greitt laun hans. Í upphafi þáðu íbúar þessa lögfræðiaðstoð og trúðu því og treystu að hann myndi vinna að hagsmunamálum þeirra og upplýsa um gang mála. En það hefur ekki orðið raunin,“ bætir Sigrún við. Hún segir hagsmunasamtökin telja að fyrrverandi forstjóri Eirar, stjórnarmenn og ýmsir aðrir eftirlitsaðilar hafi sýnt af sér mikla vanrækslu. Léleg rekstrarstaða Eirar hafi verið ljós áður en farið var í dýrar lántökur og nýbyggingar.

Hagsmunasamtökin íhuga nú hvort eigi að sækja þetta fólk til saka fyrir vanrækslu.

Sigrún segir að staðan sé slæm. „Á Eir eru dæmi þess að í stórum íbúðum búi fólk sem hefur ekki efni á að greiða fyrir þær. Fólkið vill minnka við sig en getur það ekki. […] Fólk er hreinlega í átthagafjötrum á Eir,“ segir Sigrún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×