Viðskipti innlent

Eimskip losar sig við Goðafoss og Laxfoss

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skrifstofur Eimskips að Korngörðum í Reykjavík.
Skrifstofur Eimskips að Korngörðum í Reykjavík. Vísir/vilhelm

Samhliða breytingum á gámasiglingakerfi Eimskips hefur félagið ákveðið að losa sig við tvö skip í rekstri. Eimskip hyggst þannig skila bæði Goðafossi og Laxfossi fyrr en áætlað var og þannig „lækka fastan rekstrarkostnað“ á tímum kórónuveirfarsóttarinnar.

Eimskip hyggst ráðast í umræddar breytingar í fyrri hluta apríl og segir félagið breytingarnar vera tímabundnar. Siglingakerfið verði í notkun þar til samstarf Eimskips við Royal Arctic Line hefst, en vonir standa til að samstarfið geti hafist í sumar.

Á heimasíðu Eimskips er lögð mikil áhersla á að breytingarnar sem taka formlega gildi í aprílbyrjun muni þó ekki fela í sér kúvendingu á þeirri þjónustu sem félagið hefur boðið upp frá lykilhöfnum. Þannig verði Eimskip áfram með „stysta mögulega flutningstíma frá meginlandi Evrópu, Skandinavíu og Bretlandi til Íslands og Færeyja,“ eins og það er orðað á heimasíðunni.

Þar lætur forstjóri Eimskips, Vilhelm Már Þorsteinsson, hafa eftir sér að merkja megi breyttar flutningsvenjur á þeim tímum sem nú ríkja í alþjóðasamskiptum. „Við sjáum að ferskar sjávarafurðir eru að færast í frystar og gerum m.a. breytingar á kerfinu til að mæta því. Á sama tíma leggjum við áherslu á hraða þjónustu fyrir ferskvöru til Íslands og Færeyja,“ segir Vilhelm og bætir við:

„Eimskip hefur gripið til ýmissa aðgerða til að tryggja öryggi starfsmanna og á sama tíma tryggja áreiðanleika og okkar víðtæku þjónustu til viðskiptavina á þessum fordæmalausu tímum.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×