Atvinnulíf

Hægt að innleiða áfallahjálp í daglega rútínu vinnustaða

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Doktor Sigríður Björk Þormar hefur unnið að nokkrum rannsóknum um áhrif hamfara og faraldra á líðan fólks.
Doktor Sigríður Björk Þormar hefur unnið að nokkrum rannsóknum um áhrif hamfara og faraldra á líðan fólks. Vísir/Christopher Lund

„Þrátt fyrir að við séum ansi þrautseig og höfum lifað tímana tvenna er alltaf gott að leggja áherslu á að á erfiðum tímum er alltaf þörf fyrir aukinn stuðning, það hafa rannsóknir sýnt skýrt í gegnum árin,“ segir Sigríður Björk Þormar doktor í áfallasálfræði. 

Hún segir vinnustaði geta gripið inn í með áfallahjálp á margvíslegan hátt og að slíkt inngrip þurfi alls ekkert að vera svo flókið né kostnaðarsamt. Inngripin eru ólík eftir starfshópum, til dæmis þarf framlínufólk sem er útsett fyrir smiti öðruvísi stuðning en fólk sem er ekki eins útsett né býr við jafn stöðuga ógn.

Í atvinnulífinu getur afkomuótti og óvissa ýtt undir vanlíðan og fyrir stjórnendur er erfitt að vera boðberi erfiðra tíðinda sérstaklega á viðkvæmum tímum. Allir þurfi á stuðningi að halda og þar er mikilvægt að styrkja von um betri tíma .

Krísustjórnun, áfallahjálp fyrir vinnustaði og mögulegt brottfall af vinnumarkaði í kjölfar kórónuveiru og efnahagshruns eru til umfjöllunar í Atvinnulífinu á Vísi í dag.

Hrun I og II: Í þetta sinn tölum við um líðan fólks

Dr. Sigríður Björk Þormar lauk meistaranámi í heilsu og klínískri sálfræði frá Háskólanum í Leiden, Hollandi þar sem áhersla var lögð á breytingu hegðunar gagnvart hugsanlegri ógn. Einnig lauk hún áfallasálfræði frá Háskólanum í Amsterdam og Háskólasjúkrahúsinu þar. Til viðbótar hefur hún lokið sérfræðinámi í hugrænni atferlismeðferð frá Háskóla Íslands og Oxford Center for Cognitive Behavioral Therapy. Þá lauk Sigríður BSc - prófi í hjúkrunarfræði árið 1994 og vann á slysa- og bráðamóttöku Landspítalans í fjögur ár.

Í kjölfar bankahruns fór af stað samfélagsleg umræða um líðan fólks eftir slíka atburði og opnaði Rauði kross Íslands meðal annars Rauða kross húsið í Borgartúni til að sporna gegn sálrænum afleiðingum hrunsins. 

Nú nokkrum árum síðar hefur sú umræða aukist töluvert, og bar þar kannski hæst umræða um kulnun.

Brekka kórónuveirufaraldurs verður brattari með hverjum deginum og þrátt fyrir umfangsmiklar aðgerðir stjórnvalda til að verja atvinnulífið, heyrast nú fréttir af uppsögnum, lokunum fyrirtækja og að erfiðir tímar séu framundan.

Dr. Sigríður hefur sérhæft sig í breytingu á hegðun og úrvinnslu áfalla og við byrjuðum á því að spyrja hana hvort atvinnulífið þurfi á áfallahjálp að halda til að komast í gegnum komandi tíma og misseri. Að hennar sögn hafa rannsóknir sýnt mjög skýrt að á erfiðum tímum þarf alltaf að leggja áherslu á aukinn stuðning.

Sá stuðningur er þó ekki endilega alltaf best kominn frá fagfólki heldur er mikilvægt að við styðjum við hvert annað og munum þá eftir þeim sem mögulega eiga ekki stórt eða gott tengslanet.“

Stofugangur á Landspítalanum í miðjum faraldri.Vísir/Þorkell Þorkelsson

Líðan starfsfólks í framlínu

Dr. Sigríður hefur unnið að nokkrum rannsóknum um áhrif hamfara og faraldra á líðan fólks. Eftir Ebólu faraldurinn mikla í Uganda 2013 og Vestur Afríku árið 2015, vann Sigríður til dæmis að rannsókn á andlegri heilsu starfsfólks og sjálfboðaliða sem unnið höfðu að því að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. Við spyrjum Sigríði um líðan starfsfólks sem er alltaf í návígi við óvissuna.

Eru vissir hópar í hættu á að vera lengur að ná sér eftir svona tímabil?

„Það er vissulega mikið álag á heilbrigðisstarfsfólkið okkar en við megum heldur ekki gleyma því að þetta fólk hefur verið að takast á við erfiðar aðstæður á degi hverjum í gegnum árin,“ segir Sigríður og bætir við „Sjúkraflutningamenn og starfsfólk slysa- og bráðamóttöku fór til vinnu á hverjum degi fyrir tíma Covid óvíst um hvað dagurinn gæti borið í skauti sér.“

Þannig segir Sigríður heilbrigðisstarfsfólk á daglegum grunni útsett fyrir að geta smitast af sjúkdómum. Nefnir hún sem dæmi að þegar fólk hefur verið að sinna einstaklingum með til dæmis heilahimnubólgu, þarf það að fara í sóttkví á eftir.

Á gjörgæslu er fólk líka í þeim aðstæðum að sinna fárveikum einstaklingum sem eru veikir af smitandi sjúkdómum.

Það sem er að gerast núna er ólíkt að því leyti að ástandið hefur engan skýran endi og því erfiðara fyrir fólk að vera dögum saman að vinna undir óskýrri ógn,“ 

segir Sigríður og bætir við „Fólk verður lúið og þarf því einmitt góðan stuðning.“

Einnig segir hún að vert sé að nefna að aukin streita og afkomuóttu í samfélaginu geti skilað sér út í heimilisaðstæður í formi streitufyllri samskipta og því þarf alltaf að vera vakandi fyrir hækkaðri tíðni ofbeldis á tímum hamfara og er þá gott að geta nýtt sér úrræði eins og hjá Bjarkahlíð

Sigríður segir fjölmiðlar einnig þurfa að hlúa að sínu fólki sem flytur tilfinningaþrungnar fréttir á hverjum degi. 

„Það er mikilvægt að fjölmiðlafólk hafi faglegan vettvang til að viðra hugsanir sínar og tilfinningar eftir daglanga umræðu um veiruna,“ segir Sigríður og minnir í leiðinni á hversu mikilvægt það er að fjölmiðlar vandi orðaval sitt. „Orð bera mikla ábyrgð og mikilvægt er að velja orð sem endurspegla stöðuna eins og hún er og ýti ekki undir ótta.“

Dr. Sigríður Björk segir alla þurfa stuðning. Fagfólk getur ráðlagt ráðamönnum hvernig best er að auka stuðning innan samfélagseininga og fjölmiðlar þurfa að hlúa að fréttafólki sínu sem flytur tilfinningaþrungnar fréttir alla daga.Vísir/Vilhelm

Óöryggi í atvinnulífinu

Nú er unnið að því að sporna gegn uppsögnum og aðstoða fyrirtæki í gegnum erfiða tíma. Erfiðir tímar framundan eru þó fyrirséðir. Að sögn Sigríðar er eðlilegt að starfsfólk upplifi óöryggi.

„Stjórnendur þurfa margir hverjir að grípa til erfiðra aðhaldsaðgerða eins og uppsagna eða minnkun starfshlutfalla og slíkar ákvarðanir er aldrei auðveldar þegar starfsmenn búa við óöryggi fyrir,“ segir Sigríður. 

Að hennar sögn er jafnvel enn erfiðara fyrir stjórnendur að flytja slæm tíðindi þegar óvissa er mikil.

Margir starfsmenn eru óttaslegnir og óöryggir yfir ástandinu og það er ekki auðvelt færa slíkum hópi fréttir af atvinnumissi eða niðurskurði.“

Sigríður bendir á að fjárhagsáhyggjur spili þar inn í.

„Einnig eru hópar innan samfélagsins sem upplifa afkomuótta þegar starfsemi leggst af stórum hluta af eða fólk jafnvel lendir í uppsögnum,“ segir Sigríður.

Mikilvægt að styrkja von um betri tíma

En hvernig geta stjórnendur innleitt áfallahjálp inn á sína vinnustaði þannig að starfsfólk og stjórnendur fái meiri stuðning?

„Það er ekki auðvelt að veita staðlað svar vegna breytileika fyrirtækja en hægt er að gera þetta á margvíslegan hátt og slíkt inngrip þarf alls ekki að vera svo flókið né kostnaðarsamt,“ segir Sigríður og bætir við „Fyrirtæki geta til dæmis leitað til þeirra fagaðila sem gefa sig út fyrir að veita slíka þjónustu og beðið um greiningu á þörfum hjá sér. Sigríður starfar sjálf við slíka þjónustu hjá fyrirtækjunum Sálfræðingarnir og í samvinnu við Attentus. 

 Sigríðar segir vel hægt að innleiða áfallahjálp í daglega rútínu vinnustaða.

„Það er oftast einfalt og hraðvirkt ferli þar sem jafnvel er reynt að byggja stuðninginn inn í daglegt ferli fyrirtækisins með fræðslu um líðan og viðbrögð fólks til að auka innsýn og skilning yfirmanna og samstarfsmanna," segir Sigríður og bætir við 

með áherslubreytingum í daglegri rútínu sem hefur það að markmiði að auka öryggi, róa, styrkja trú á eigin getu og getu hópsins til að takast á við erfiða hluti, styrkja tengsl innan hópsins og styrkja von um betri tíma framundan.“

Að hennar sögn fer útfærslan eftir eðli starfsseminnar.  

Dr. Sigríður segir vinnustauði geta innleitt áfallahjálp inn í sína daglegu rútínu þar sem útfærsla tekur mið af eðli starfsseminnar. Vísir/Christopher Lund

Allir geta verið hluti af áfallahjálp

Sigríður segir að huga þurfi sérstaklega að aðilum sem geta einangrast í þeim aðstæðum sem nú eru uppi. 

Áfallahjálp snúist að miklu leyti um mannlegan stuðning og þar geti allir verið hluti af hjálpinni, ekki aðeins fagfólk. 

Dugi sá stuðningur ekki til að styrkja fólk til að ná utan um daglegt líf, sofa ágætlega og ná öryggistilfinningu þá gæti þurft að grípa til aðstoðar sérfræðinga eins og sálfræðinga.

„Aðilar geta einangrast og langvarandi einangrun er líkleg til að leiða af sér vanlíðan. Við erum öll félagsverur og höfum þörf fyrir nánd og hlýju þó svo einhver einstaklingsmunur sé þar á,“ segir Sigríður.

Þá segir Sigríður fagfólk geta ráðlagt ráðamönnum í samfélaginu hvernig best er að auka stuðning innan samfélagseininga eða fyrirtækja.

Loks tekur hún undir orð Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra um að nú sé tíminn til að hringja í gömlu frænkuna eða afa sinn og ömmu.

Það getur líka verið ákveðin öryggistilfinning í því að finna að aðrir muni eftir manni. Núna er nógur tími til að hringja í gömlu frænkuna eða sinna afa sínum betur.“


Tengdar fréttir

Krísustjórnun á tímum kórónuveiru og algengustu mistökin

Bjarni Snæbjörn Jónsson segir mikilvægt að stjórnir stígi inn að krafti og styðji við stjórnendateymin sín. Mistök verða gerð enda enginn sem getur fullyrt að ráða við stöðuna sem nú er uppi. Fyrirtækjum blæðir og sum eru í „hjartastoppi.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.