Viðskipti innlent

Bannað að greiða út arð á meðan ríkisábyrgðar nýtur

Birgir Olgeirsson og Andri Eysteinsson skrifa
Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Efnahags- og viðskiptanefndar.
Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Efnahags- og viðskiptanefndar. Vísir/Vilhelm

Fyrirtæki sem munu njóta skjóls frá skattgreiðendum verður bannað að greiða út arð á meðan ríkisábyrgðar nýtur. Um er að ræða tillögu frá efnahags- og viðskiptanefnd en formaður hennar segir um sanngirnismál að ræða.

Í aðgerðapakka ríkisstjórnar vegna áhrifa kórónuveirunnar á íslenskt efnahagslíf lofuðu stjórnvöld að ábyrgjast helming brúarlána til fyrirtækja í rekstrarvanda og þannig styðja þau til að greiða laun og fastan rekstrarkostnað. Ábyrgðin nær einnig til nýrra útlána til fyrirtækja sem hafa orðið að minnsta kosti 40 prósenta tekjumissi.

Efnahags- og viðskiptanefnd hefur nú gert breytingu á þessari tillögu.

„Þau fyrirtæki sem koma til með að fá ríkisábyrgð á hluta af lánum sínum mega ekki greiða eigendum sínum arð eða kaupa eigin hlutabréf sem er auðvitað ein aðferð við arðútgreiðslu. Þetta var talið nauðsynlegt, eðlilegt og sanngjarnt að þegar að menn eru að fá skjól frá skattgreiðendum í formi ríkisábyrgðar að þá haldi menn að minnsta kosti í sér þegar kemur að arðgreiðslum,“ segir Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar.

Þá er einnig önnur mikilvæg breyting lögð til.

„Það verður sérstök eftirlitsnefnd sem verður skipuð. Hún getur kallað eftir upplýsingum frá viðskiptabönkum um allt er viðkemur lánafyrirgreiðslu til fyrirtækja og ríkisábyrgðir til þeirra. Sex mánaða fresti á að gefa ráðherra skýrslu um framkvæmdina, ráðherra leggur þá skýrsluna fyrir Alþingi til umfjöllunar.“

Óli Björn segir það mikilvægt svo öll fyrirtæki sitji við sama borð.

Öll fyrirtæki sitji við sama borð og þau séu höndluð með sama hætti. Vegna þess að það er hvorki sjálfgefið né sjálfsagt að veita fyrirtækjum ríkisábyrgð en þetta eru óvenjulegar aðstæður og það er talið nauðsynlegt. Þá er fullkomnlega eðlilegt að það sé fylgst með framkvæmdinni og það er fullkomlega eðlilegt að settar séu skorður við það hvernig eigendur fyritækja haga sér, þar með að þeim sé bannað að greiða sjálfum sér arð á meðan þeir eru er í skjóli okkar hinna, skattgreiðenda ríkissjóðs,“ sagði Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar í hádegisfréttum Bylgjunnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×