Handbolti

Úrslitin í Meistaradeildinni eiga að ráðast í ágúst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lið félaganna Stefáns Rafns og Arons eru enn með í Meistaradeild Evrópu.
Lið félaganna Stefáns Rafns og Arons eru enn með í Meistaradeild Evrópu. vísir/getty

Evrópska handknattleikssambandið hefur gefið út að ekki verði keppt í Evrópukeppnum í apríl og maí vegna kórónuveirufaraldursins.

Í yfirlýsingu frá EHF kemur fram að keppni gæti hafist aftur í júní. Áætlað er að úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í karlaflokki fari fram 22. og 23. ágúst en ekki 30. og 31. maí. Að venju á úrslitahelgin að fara fram í Lanxess höllinni í Köln.

Sextán og átta liða úrslit Meistaradeildar karla eiga að fara fram í júní. Samtals fimm Íslendingar eru enn með í Meistaradeild karla (Guðjón Valur Sigurðsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Aron Pálmarsson, Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason) og einn í Meistaradeild kvenna (Rut Jónsdóttir).

Úrslitahelgin í Meistaradeild kvenna verður væntanlega færð til 5. og 6. september. Hún átti að fara fram 9. og 10. maí. Leikið verður í Búdapest.

Þá eiga úrslitin í EHF-bikar karla að ráðast 29. og 30. ágúst í stað 23. og 24. maí. Úrslitahelgin fer fram í Berlín.

Síðustu fjórir leikirnir í undankeppni fyrir EM kvenna fara fram á sama stað dagana 3.-7. júní. Ísland er með Króatíu, Frakklandi og Tyrklandi í riðli.

Umspilsleikir fyrir HM karla fara væntanlega fram fyrstu vikuna í júlí. Það hefur þó ekki enn verið staðfest. Fyrri leikirnir myndu þá fara fram 1. eða 2. júlí og seinni leikirnir 4. eða 5. júlí.

EM U-20 ára karla í Austurríki og Ítalíu hefur verið fært til 13.-23. ágúst. Mótið átti að fara fram 2.-12. júlí.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×