Skoðun

Þing­menn og ráð­herra undir sömu lög og skerðingar­á­kvæði og ör­yrkjar þurfa að sætta sig við

Jack Hrafnkell Daníelsson skrifar

24. febrúar síðastliðin skrifaði ég pistil undir heitinu „Nútíma þrælahald“ þar sem ég fór aðeins yfir það hvernig öryrkjar og aldraðir eru bundnir í þrældóm fátæktar með lagasetningum sem að mínu mati eru ekkert annað en mannréttindabrot og hvernig þau lög halda þessum fátækasta og mest ósjálfbjarga hópum í fjötrum og þrælahaldi fátæktar þar sem öryrkinn hefur enga möguleika á að bjarga sér úr henni vegna, (ólögmætra) skerðinga á öðrum tekjum og ýmsu öðru sem stjórnmálamenn og aðstoðarmenn þeirra hafa búið til og ætla ég að vísa í nokkur atriði til upprifjunar á þeim pistli.

Vissir þú til dæmis að ef öryrki býr með einhverjum sem komin er yfir 18 ára aldur, barni sínu, maka, foreldri eða einhverjum öðrum, þá skerðast tekjur hans vegna þess?

Lífeyrissjóðstekjur skerða bætur frá almannatryggingum um krónu á móti krónu en upphaflega samkomulagið um lífeyrissjóði og almannatryggingar var gert á þeim grunni að lífeyrissjóðstekjur yrðu viðbót við bætur almannatrygginga fyrir þá sem höfðu haft starfsgetu hluta ævinar en stjórnvöld síðustu ára hafa snúið þeim áherslum á hvolf og reyna að telja fólki trú um að lífeyrissjóðirnir eigi að koma fyrst og síðan eiga almannatrygginar að bæta upp það sem á vantar.

Þeir stjórnmálamenn og það fólk sem svona hagar máli sínu gerir það annað hvort af vanþekkingu einni saman eða þá af meðvituðum óheiðarleika þar sem reynt er að koma skyldum ríkisins og ríkissjóðs yfir á herðar lífeyrissjóðana og megi þeir hafa skömm fyrir slíkan málflutning.

Ég ætla ekki að telja upp meira því það getið þið lesið um í meðfylgjandi tengli hér efst í pistlinum en ætla þess í staða að snúa mér að efninu sem pistillin á að fjalla um en það er sú spurning hvort ekki sé komin tími til að setja þingmenn og ráðherra undir sömu ólögin og öryrkjar þurfa að sætta sig við af hendi þessara sömu stjórnvalda.

Mundu þingmenn og ráðherrar sem settu þessi ólög og viðhalda þeim enn í dag, sætta sig við að vera settir undir sömu lög og þeir ætlast til að öryrkjar séu skikkaðir undir? Persónulega held ég ekki og ef svo væri þá mundu þeir verða fljótir til með öllum greiddum atkvæðunum á þingi að afnema þau enda eru þetta lög sem brjóta mannréttindi og stuðla að eignaupptöku hjá fjölda fólks án þess að eðlileg og sanngjörn greiðsla komi til eins og kveður um á í stjórnarskrá og því eru þessi lög sem kveða á um að skerða tekjur fólks ekkert annað en hreint og klárt stjórnarskrárbrot.

Þingmenn og ráðherrar mundu aldrei sætta sig við að þurfa að undirgangast slíkar lagasetningar.

En skoðum hvernig laun þingmanns yrðu við það að vera settir undir þessi ólög sem öryrkjum er gert að sætta sig við.

Á málþingi Öryrkjabandalags Íslands sem haldið var þann 11. mars siðastliðin var Atli Þór Þorvaldsson, öryrki og hagfræðingur með framsögu þar sem hann var búinn að taka saman og setja upp á einfaldan hátt hvernig tekjur þingmanns yrðu væri hann undirsettur sömu lög og reglugerðir og öryrkjar. Niðurstöðurnar voru sláandi því miðað við útreikninga hans lækkuðu laun allra þingmanna umtalsvert í þeim útreikningum enda notaði Atli sömu reiknilíkön og Tryggingastofnun Ríkisins notar á öryrkja.

Byrjum á því að taka þingmannalaunin eins og þau voru á síðasta ári ásamt aukasporslum sem þingmenn fá eins og bílastyrk, húsnæðis og ferðastyrk svo fátt eitt sé talið.

Skoðum núverandi fyrirkomulag.

Launasamsetning þingmanna fyrir árið 2019.

Þingfararkaup er um 1,1 mkr á mánuði

Aðrar greiðslur fyrir:

  • ferðakostnað innanlands
  • húsnæðis- og dvalarkostnað
  • símkostnað sem tengist þingstörfum
  • kostnað við kaup á GSM-síma, allt að 80 þús. kr.
  • ferðakostnað erlendis
  • svo sem gistikostnað og 50% fullra dagpeninga til viðbótar
  • starfskostnað - hámark slíkrar greiðslu er nú 480.000 kr. á ári.

Allir alþingismenn eru slysatryggðir allan sólarhringinn

Styrktarsjóður alþingismanna

  • Alþingismenn skulu eiga rétt á hliðstæðri endurgreiðslu útgjalda og styrkja sem embættismenn njóta

Laun, (Þingfararkaup) 1.101.194 krónur á mánuði eða 13.214.328 krónur á ári.

Aðrar greiðslur 456.369 krónur á mánuði eða 5.476.433 krónur á ári.

Samtals: 1.557.563 krónur á mánuði eða 18.690.761 krónur á ári.

Skoðum nú hvernig þetta yrði ef skrifuð væru ný lög um kjör þingmanna, lög sem tækju mið af því hvernig lög um almannatryggingar og kjör öryrkja eru í dag og þingmenn settir undir þau.

Fast mánaðarkaup þingmanns yrðu þá um 1.300.000,- krónur á mánuði og inni í þeim yrðu greiðslur vegna funda og ferðakostnaðar.

Launin yrðu sundurliðuð í fimm þætti með sama hætti og gert er með öryrkja og greiðslur einfaldaðar til muna.

  • Þingmenn fá mánaðarlaun
  • Aðrar greiðslur verða fyrir vinnu utan þings eða nefndarstarfa utan þingsins
  • Aukagreiðslurnar geta verið 4 mkr á ári

Setjum þetta upp svona:

Laun þingmanna verði:

  • 616.232 krónur þingfararkaup
  • 192.432 krónur grunnlaun
  • 208.292 krónur heimilisuppbót
  • 255.324 krónur framfærsluuppbót
  • 28.864 krónur aldurstengd þinglaun
  • 1.301.144 krónur mánaðarlaun
  • Drögum frá skatta og fáum 846.968 krónur eftir skatt
  • En þingmaðurinn ætlar að vinna sér inn 4.000.000 króna aukalega enda áhugasamur og atorkusamur

Allt að 4 mkr í aukagreiðslur bætast við grunnlaunin

Afmörkun fjárhagsramma

Skerðingar:

  • Verði laun hærri en það skerðast laun á móti krónu fyrir krónu
  • eða krónu fyrir 65 aura

Launin eftir aukavinnuna breytast því eins og hér sést.

Laun án aukavinnu og eftir aukavinnu.

Drögum frá skatta og þá fáum við út að af 1.301.144,- krónum standa eftir 846.968,- krónur ef engin er aukavinnan en 909.687,- krónur með aukavinnu.

Með skerðingunum sitja þá eftir af 333.333,- króna aukatekjunum aðeins um 62.719,- krónur á mánuði eða 745.649,- krónur yfir árið.

Höldum áfram og skoðum hvaða áhrif sambúð hefði á laun þingmannsins væri hann settur undir sömu kvaðir, lög og skerðingar og öryrkjar eru neyddir til að gangast undir.

Sambúð:

  • Heimilisuppbót fellur niður.
  • Framfærsluuppbótin lækkar.

Þá lítur dæmið svona út:

Þarna sést að sambúðin gerir aukatekjurnar að engu en skerðingarmörkin eru fjórföld miðað við öryrkja enda tekjurnar hærri hjá þingmanninum.

Haldið þið sem þetta lesið, að svona lög mundu verða samþykkt á Alþingi? Að sjálfsögðu ekki. Enda mundi þetta fólk aldrei sætta sig við að vera sett undir sömu óþveralögin og skerðingarákvæðin sem öryrkjar þurfa að undirgangast af henndi löggjafans án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér því ekki hafa öryrkjar verkafallsrétt eins og hin vinnandi stétt.

Við skulum setja hér í töflu eitt raunverulegt dæmi úr reiknivél Tryggingastofnunar sem lýsir vel þeim raunveruleika sem öryrkjar búa við og þetta eru raunverulegar tölur um þau kjör sem öryrki sem býr einn þarf að lifa af á samkvæmt ákvörðun alþingis og ríkisstjórnar Íslands.

Atvinnutekjur í þessu dæmi skila tekjulækkun sem nemur tæpum 21 þús. krónum á mánuði ef viðkomandi skráir sig að auki í sambúð.

Níðingsháttur stjórnvalda á öryrkjum er hreint út sagt ógeðslegur og annað sem er jafnvel þyngra en tárum taki er sá málflutningur sumra þingmanna og ráðherra gagnvart öryrkjum í gegnum árin að þeir séu stöðugt að svindla á kerfinu og svíkja út bætur þrátt fyrir að niðurstöður rannsókna á bótasvikum hafi sýnt og sannað allt aðra hluti.

Einnig hafa þingmenn og ráðherrar gert sig seka um það hvað eftir annað að halda því fram að fólk hafi „skráð“ sig á örorku af því það nenni ekki að vinna og sorglegast við svona málflutning er að fjölmiðlar hafa blásið út þennan málflutning algjörlega gagnrýnislaust án þess að kynna sér staðreyndir hlutana og hvernig ferlið er við að fara á örorku því staðreyndin er sú að þetta er bæði langt og strangt ferli og fólk „skráir“ sig ekkert á örorkubætur að gamni sínu eða af því það nennir ekki að vinna. Að halda slíku fram er í besta falli fáfræði og í versta falli mannvonska og hatur á öryrkjum af hendi þeirra sem þannig tjá sig um þessi málefni.

Því miður eru til stjórnmálamenn sem hafa látið þau orð falla að það sé allt of marga öryrkja að finna á íslandi og það þurfi að skikka þessa aumingja í vinnu.

Við skulum athuga það, að örorkumat er framkvæmt af læknum, ekki einum heldur mörgum og skilgreinir það (van)getu einstaklings til fullrar vinnu og örorkan er metin í prósentum.

Örorka er af misjöfnum toga og getur verið líkamleg, andleg eða bland beggja og hún getur verið tímabundin vegna slysa eða sjúkdóma en einnig getur hún verið vaxandi, það er að segja byrjar í lágri prósentu en eftir því sem getan til vinnuþáttöku minnkar þá eykst örorkan þangað til viðkomandi fer úr því að vera 20% öryrki í það að verða 75% öryrki sem er hæsta stig örorkumats hjá Tryggingastofnun Ríkisins.

Viðhorf stjórnvalda þarf að breytast því þær tekjur sem öryrkjum eru skammtaðar í dag með sköttum og skerðingum eru í öllum tilfellum undir fátæktarmörkum og mjög mörgum tilfellum undir sárafátæktarmörkum því útgjöld öryrkja eru síður en svo minni en þeirra sem fullfrískir eru og í fullri vinnu því það er drjúgur kostnaður sem fer í komur á heilbrigðisstofnanir, ferðakostnað, sjúkraþjálfun, líkamsrækt, sálfræðiþjónustu og síðast en ekki síst í lyfjakostnað.

Það er munur á starfsorku heilbrigðra og margra öryrkja og margir öryrkjar gætu með góðu móti unnið tímabundið eða hlutastörf þegar heilsan leyfir það en til þess að það geti orðið þarf að afnema þessar ómannúðlegu, ósanngjörnu og ólöglegu skerðingar sem öryrkjar eru undirsettir til að hvati til vinnu verði til staðar.

Að lokum ætla ég að setja hérna niðurlag Atla úr framsögu hans þar sem hann segir:

Það eru til stjórnmálamenn með hugsjón.

Sem hafa ástríðu fyrir starfinu.

Ástríðupólitíkus hellir sér í nefndarstörf af áhuga.

Það er ekki til ástríðuöryrki!

Þegar öryrki hefur orku til að vinna aukalega á viðkomandi að fá bætt lífskjör fyrir viðvikið.

Afnemum skerðingar öryrkja!

Glæruskjal Atla Þórs er að finna hér á PDF formi fyrir þá sem hafa áhuga á því að kynna sér það.

Tengill á málþing ÖBÍ frá 11. mars síðastliðinn, Framsaga Atla hefst þegar ein klukkustund og tuttugu og fimm mínútur eru liðnar af málþinginu.

Höfundur er öryrki og efnahgaslegur flóttamaður búsettur erlendis.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×