Viðskipti innlent

Mögulegt ferðabann hefur mikil áhrif á Icelandair

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. vísir/vilhelm

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að skoða þurfi uppsagnir eða lækkuð starfshlutföll komi til þess að íslensk stjórnvöld ákveði að landið taki þátt í fyrirhuguðu ferðabanni til Evrópusambandsins og Schengen-ríkjanna sem ætlað er að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19.

„Við erum búin að ræða að við ýmsar starfsstéttir hérna í félaginu að við verðum í sameiningu að koma félaginu í gegn um þessar erfiðu aðstæður,“ sagði Bogi í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 nú í kvöld. „Það ætlum við að gera með því að við verðum að lækka launakostnað á meðan við erum ekki að fljúga þá er það langstærsti kostnaðarliðurinn okkar.“

Þá segir hann að komi til ferðabanns muni það hafa veruleg áhrif á félagið en það sé í takt við þá þróun sem hafi verið undanfarna daga þar sem ferðabanni hefur verið komið á í mörgum löndum. Það hafi þegar haft mikil áhrif á félagið og áætlanir þess.

„Við höfum verið að vinna þetta þannig undanfarna daga að taka upplýsingarnar og breyta okkar plönum miðað við það og við erum að taka þessar upplýsingar inn núna og skoða hvaða áhrif þetta hefur á okkur. Það er að sjálfsögðu þannig að okkar leiðakerfi mun minnka og minnka þegar líður á þessa viku og við þurfum að bregðast við því í okkar rekstri og lækka okkar rekstrarkostnað því að tengiflug kemur ekki inn [til landsins] á meðan þetta ástand varir.“

Hann segir að félagið hafi verið að endurmeta leiðakerfi sitt dag frá degi og breyta flugáætlunum og fella þau niður eftir því sem lönd hafa verið að takmarka flug. „Núna í dag erum við að reka svona 60 prósent af leiðakerfinu eins og það var áætlað og það hefur verið að minnka dag frá degi og mun væntanlega halda áfram næstu daga.“

Beiðnin um ferðabann barst í dag frá Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, og sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 að málið verði tekið fyrir á ríkisstjórnarfundi á morgun. Ekki liggur þó fyrir hvenær niðurstaða verður kynnt.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×