Handbolti

Daníel varði og skoraði og Elliði fun­heitur í jafn­tefli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Fyrirliðinn Elliði Snær Viðarsson nýtti öll sex skot sín.
Fyrirliðinn Elliði Snær Viðarsson nýtti öll sex skot sín. Vísir/Daníel

Gummersbach, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, missteig sig í þýsku B-deildinni í kvöld er liðið gerði 24-24 jafntefli við Bayer Dormagen.

Gummersbach hafði verið á fleygiferð og unnið ellefu af tólf leikjum sínum og tapað einum leik fyrir leik kvöldsins en liðið er í öðru sætinu með 23 stig, tveimur stigum á eftir Hamburg.

Gummersbach á þó tvo leiki til góða svo liðið er í fínni stöðu en tvö efstu liðin fara beint upp í þýsku úrvalsdeildina. Elliði Snær Vignisson skoraði sex mörk og var markahæstur hjá Gummersbach.

Hannes Jón Jónsson og lærisveinar hans í Bietigheim unnu sex marka sigur á Tus Ferndorf, 33-27, en Bietigheim eru í fjórtánda sætinu.

Daníel Freyr Andrésson varði og varði í marki Guif sem vann sex marka sigur á Onnereds, 33-27, í Svíþjóð, en FH-ingurinn varði tæplega helming skotana sem hann fékk á sig.

Daníel Freyr skoraði einnig eitt mark en Guif komst í smá fjarlægð frá fallsvæðinu með sigrinum.

Kristianstad er í sjöunda sætinu eftir sigur á Varberg í sömu deild í kvöld, 31-19. Teitur Örn Einarsson gerði þrjú mörk og Ólafur Guðmundsson eitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×