Viðskipti innlent

Harpa og Isavia fá ríkis­að­stoð

Sylvía Hall skrifar
Lítið hefur verið um samgöngur milli landa vegna kórónuveirufaraldursins.
Lítið hefur verið um samgöngur milli landa vegna kórónuveirufaraldursins. Vísir/Vilhelm

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, samþykkti í dag ríkisaðstoð Íslands til Hörpu og Isavia vegna tjóns af völdum kórónuveirufaraldursins. Harpa mun fá beinan 400 milljón króna styrk en tjón Isavia verður bætt með auknu hlutafé.

Ráðstöfun ríkisins til Isavia felst í því að bæta fjárhagslegt tjón frá 1. mars á þessu ári til 30. júní á næsta ári og er hámarkskostnaður ráðstöfunarinnar 15 milljarðar íslenskra króna. 

Í tilkynningu um aðstoðina segir að sóttvarnaaðgerðir og ferðatakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins hafi haft verulega slæm áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi og ekki sé útlit fyrir að úr rætist á næstu mánuðum.

Hvað varðar aðstoð til Hörpu segir að menningarstofnanir hafi átt í erfiðleikum með að viðhalda eðlilegum rekstri í ljósi þess hversu mörgum stórviðburðum hafi verið aflýst.

Ekkert varð úr mörgum stórviðburðum í Hörpu vegna sóttvarnaaðgerða í kjölfar kórónuveirufaraldursins.Vísir/Vilhelm

Alþjóðlegar ráðstefnur og innlendir fyrirtækjaviðburðir hafi þurft að fara fram á rafrænan hátt, enda menningarstofnanir þurft að hafa lokað eða starfa við takmarkanir síðan í mars. Aðstoðinni er ætlað að bæta fjárhagslegt tjón frá 1. mars á þessu ári til 30. júní 2021 og kemur Reykjavíkurborg einnig að þeim stuðningi.

Áætlað er að Ísland geri úttekt á tjóni beggja aðila árin 2021 og 2022. Reynist stuðningur þeirra hærri en sem nemur tjóninu verður mismuninum skilað til baka til baka til ríkisins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×