Viðskipti innlent

Lands­bankinn með þriðjungs­hlut í Kea­hótelum eftir endur­skipu­lagningu

Atli Ísleifsson skrifar
Keahótel rekur alls níu hótel á landinu, þar á meðal Hótel Borg.
Keahótel rekur alls níu hótel á landinu, þar á meðal Hótel Borg. Vísir/Vilhelm

Samkomulag hefur náðst um endurskipulagningu Keahótela sem er sagt tryggja félaginu stöðugan rekstrargrundvöll til ársins 2022. Í samkomulaginu felst að hluta skulda hefur verið breytt í hlutafé, að Landsbankinn eigi nú þriðjungs hlut í félaginu, og að núverandi eigendahópur hafi komið með nýtt fé inn í reksturinn. Þá hafi leigusalar gert samkomulag um veltutengdar leigugreiðslur, sem eru þó með ákveðnu lágmarksgólfi.

Þetta kemur fram í tilkynningu. Þar segir að endurskipulagningin styrki bæði eiginfjárstöðu og rekstur hótelanna og skapi félaginu sterka stöðu á gistimarkaðnum þegar ferðamönnum fari að fjölga á ný, vonandi strax á komandi vori.

„Líkt og viðbótar fjárfesting núverandi eigenda í félaginu sýnir, sem nemur á þriðja hundrað milljóna, þá eru þeir sannfærðir um að framtíðin sé afar björt í ferðaþjónustu hér á landi. Allir í núverandi eigendahópi Keahótela tóku þátt í hlutafjáraukningunni og heldur sá hópur á um tveimur þriðju hlutafjár eftir hana,“ segir í tilkynningunni.

Starfrækja níu hótel

Keahótelin starfrækja alls níu hótel, þar á meðal Hótel Borg við Austurvöll og Hótel Kea á Akureyri. 

Haft er eftir Hugh Short, forstjóra bandaríska fjárfestingarfyrirtækisins PT Capital, að hluthafar vilji þakka Landsbankanum og leigusölum hótelanna fyrir að farsælt samkomulag hafi náðst um endurskipulagningu.

„Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við Landsbankann, sem er nýr ríflega þriðjungs hluthafi í félaginu, og við leigusala okkar sem hafa ákveðið að tengja leigukjör félagsins við undirliggjandi rekstrarafkomu hótelanna sem starfrækt eru í viðkomandi fasteignum. Þetta skiptir miklu. Fyrir liggur að aðilar samkomulagsins hyggjast takast á við næstu misseri saman eða þar til eðlilegt ástand skapast á ferðamarkaðinum að nýju. Ljóst er að Covid hefur haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér fyrir ferðaþjónustuna, bæði hér á landi og um allan heim. Fyrir þá sem munu lifa í gegnum þessa óvenjulegu tíma geta orðið til ýmis ný tækifæri og á þeirri vegferð skiptir miklu að vera með fullfjármagnað félag og reksturinn tryggðan til lengri tíma,“ er haft eftir Short.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×