Viðskipti innlent

Lyf og heilsa kaupir Garðs apótek

Atli Ísleifsson skrifar
Haukur Ingason hefur verið eigandi Garðs apóteks.
Haukur Ingason hefur verið eigandi Garðs apóteks. Aðsend

Haukur Ingason, eigandi Garðs apóteks, og Lyf og heilsa hafa undirritað með sér samning þess efnis að Lyf og heilsa taki yfir rekstur Garðs apóteks sem mun þó áfram verða rekið undir því nafni.

Samningurinn er með þeim fyrirvara að leyfi Samkeppniseftirlits fáist fyrir kaupunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu þar sem haft er eftir Hauki að það sé kominn tími til að breyta til eftir fjórtán ár í starfinu . Segir hann að Lyf og heilsa sé rétti aðilinn til að taka við apótekinu og þjónusta viðskiptavinina áfram.

Garðs apótek hefur verið starfrækt frá árinu 1956 og var fyrst til húsa að Hólmgarði 34, þaðan sem apótekið dregur nafn sitt, en flutti síðar að Sogavegi 108 þar sem það er nú staðsett.

„Stofnandi og fyrsti lyfsali Garðs Apóteks var Mogens A. Mogensen og rak hann apótekið til loka árs 1984 er Örn Ævarr Markússon tók við og var lyfsali til loka árs 1997. Jón R. Sveinsson tók þá við apótekinu og rak apótekið til 1. ágúst 2006 er núverandi apótekari Haukur Ingason keypti apótekið og tók við lyfsöluleyfinu,“ segir í tilkynningunni.

Lyf og heilsa rekur um þrjátíu apótek, ýmist undir nafni Lyfs og heilsu eða Apótekarans.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×