Viðskipti erlent

Ríkissaksóknari Namibíu sagður með Samherja í sigtinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vendingar í máli Samherja í Namibíu.
Vendingar í máli Samherja í Namibíu. Vísir/Sigurjón

Martha Imalwa, ríkissaksóknari Namibíu, er sögð vera með íslenska sjávarútvegsfyrirtækið Samherja í sigtinu í tengslum við rannsókn namibískra yfirvalda á meintum mútugreiðslum og spillingu þar í landi.

Þetta kemur fram í frétt Namibian Sun í morgun þar sem segir að Imalwa muni ákæra fyrirtækið fyrir hlut sinn í Fishrot-málinu svokallaða, líkt og það er orðað í frétt namibíska fjölmiðilsins. Fishrot-málið hefur í daglegu tali hér á landi gengið undir nafninu Samherjaskjölin, eftir að Kveikur fjallaði um málið í nóvember á síðasta ári.

Enginn starfsmaður Samherja er nafngreindur í frétt Namibian Sun, einungis er talað um fyrirtækið Samherja. Í frétt Namibian Sun er vitnað í yfirlýsingu frá skrifstofu ríkissaksóknarans þar sem því er haldið fram að eina leiðin fyrir Samherja til að öðlast kvóta hafi verið að fara í kringum þær hefðbundnu leiðir sem um það gildi samkvæmt lögum í Namibíu.

Í frétt Namibian Sun er einnig vísað í sömu tölur og sagt var frá í frétt RÚV í vikunni, það er að meintur ólöglegur ávinningur Samherja af milliríkjasamningi namibískra og angólskra yfirvalda, sé metinn á 547 milljónir namibíudollara, um 4,7 milljarða króna.

Þessu hefur Samherji hafnað alfarið í yfirlýsingu á vef félagsins í gær sem birt var af tilefni fréttaflutnings RÚV um hinn meinta ávinning. Þar segir að ekki hafi verið tekið fram að sú fjárhæð sem tilgreind var feli í sér áætlaðar heildartekjur áður en skattar og gjöld hafi verið dregin frá. Ekkert hafi verið minnst á skatta, gjöld og annan rekstarkostnað. Þá bendir félagið á að útgerðin í Namibíu hefði þegar uppi var staðið, verið rekin með tapi á tímabilinu 2012-2018.


Tengdar fréttir

Kyrrsetningu Heinaste aflétt og skipið selt

Namibísk yfirvöld hafa aflétt kyrrsetningu á togaranum Heinaste, sem kyrrsettur var þar í landi í nóvember 2019. Bréf um afléttingu kyrrsetningarinnar var undirritað í gær samhliða sölu á togaranum.

Meintur ólöglegur ágóði Samherja sagður 4,7 milljarðar

Meintur ólöglegur ágóði sem Samherji fékk af milliríkjasamningi namibískra og angólskra yfirvalda er metinn á um 4,7 milljarða íslenskra króna. Ríkisútvarpið greinir frá og hefur upp úr beiðni sem namibískur saksóknari hefur lagt fram fyrir dómstól í Namibíu.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.