Handbolti

Þórir byrsti sig: „Hann notaði útiröddina inni“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Hergeirsson hefur stýrt norska landsliðinu með frábærum árangri síðan 2009.
Þórir Hergeirsson hefur stýrt norska landsliðinu með frábærum árangri síðan 2009. getty/Oliver Hardt

Þórir Hergeirsson brá út af vananum og messaði nokkuð hressilega yfir norska landsliðinu í leikhléi í æfingaleiknum gegn Danmörku í gær.

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, hækkaði róminn í leikhléi undir lok æfingaleiks Noregs og Danmerkur í gær. Norska liðið vann leikinn, 29-26, en var nálægt því að kasta sigrinum frá sér.

Þórir er venjulega yfirvegunin uppmáluð á meðan leik stendur en hann messaði nokkuð hressilega yfir sínum leikmönnum í gær. 

„Hann var reiður. Hann er venjulega rólegur og yfirvegaður svo það hlaut eitthvað að brenna innra með honum,“ sagði Bent Nyegaard, álitsgjafi hjá TV 2 í Danmörku.

Þórir var ekki sáttur með hvernig norska liðið spilaði undir lok leiksins og var sérstaklega argur yfir töpuðum boltum.

„Þetta gerist ekki oft, að Þórir notar útiröddina inni. Hann var pirraður,“ sagði Harald Bredeli, álitsgjafi hjá TV 2 í Noregi.

Þóri rann þó reiðin fljótt og eftir leikinn grínaðist hann með að Íslendingar þyldu ekki að tapa fyrir Dönum á íþróttavellinum.

Noregur og Danmörk mættust einnig á miðvikudaginn og þá unnu Norðmenn með tveggja marka mun. Leikirnir voru liður í undirbúningi liðanna fyrir EM sem hefst í Danmörku næsta fimmtudag.

Noregur er í D-riðli Evrópumótsins með Þýskalandi, Rúmeníu og Póllandi. Fyrsti leikur norska liðsins er gegn því pólska á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×