Handbolti

Virkaði vel að vera ekki kjúklingahaus

Sindri Sverrisson skrifar
Höfuð Björgvins Páls Gústavssonar er ekki frábrugðið öðrum mannshöfðum.
Höfuð Björgvins Páls Gústavssonar er ekki frábrugðið öðrum mannshöfðum. EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN

Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkmaður í handbolta, ræddi um öndunaræfingar og óvenjuleg skilaboð frá þjálfara sínum í viðtali vegna HM í Egyptalandi í janúar.

Björgvin Páll hefur verið tíður gestur á stórmótum undanfarin tólf ár eftir að hafa fyrst farið með landsliðinu á Ólympíuleikana í Peking árið 2008. Í viðtali sem birtist á samfélagsmiðlum HM í Egyptalandi kveðst Björgvin einmitt eiga kærustu minningarnar frá Peking, enda vann íslenska liðið til silfurverðlauna.

Í svörum Björgvins kemur meðal annars fram að hann tippi á að Norðmaðurinn Sander Sagosen verði markahæstur á HM í Egyptalandi, og að hann telji heimamenn líklegasta til að koma á óvart á mótinu: „Ég elska hvernig þeir spila,“ segir Björgvin.

Öndunaræfingarnar hjálpa mikið

Hann var beðinn um að nefna óvanalega aðferð sem hann notaði til undirbúnings, sem hefði skilað árangri:

„Það óvenjulegasta sem ég geri, nánast á hverjum degi, eru öndunaræfingar. Ég hef hugsað mikið um öndunina, fyrir leiki og æfingar, á æfingum og eftir æfingar. Það er óvenjulegt að æfa öndun sem handboltamaður, en það hefur hjálpað mér mikið í gegnum árin eftir því sem ég hef lært betur að stjórna önduninni,“ segir Björgvin.

Þegar hann er svo rukkaður um sögu af einhverju óvenjulegu sem sagt hefði verið við hann í leikhléi, en virkað vel, svarar Björgvin léttur:

„Fyrir þremur árum sagði markmannsþjálfarinn minn, Roland Eradze, mér að vera ekki kjúklingahaus. Mér fannst þetta skondin skilaboð en ég spilaði vel í þessum leik og við unnum, svo að ég held að ég sé ekki kjúklingahaus.“

HM í handbolta fer fram dagana 13.-31. janúar, en því hefur reyndar verið mótmælt að mótið skuli fara fram á meðan að kórónuveirufaraldurinn geisar.

Ísland er í riðli með Portúgal, Alsír og Marokkó og er fyrsti leikurinn við Portúgal fimmtudagskvöldið 14. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×