Handbolti

Aron Pálmarsson vill að hætt verði við HM í handbolta í janúar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í landsleik í Laugardalshöllinni.
Aron Pálmarsson í landsleik í Laugardalshöllinni. Vísir/Andri Marinó

Aron Pálmarsson og félagar hans í íslenska handboltalandsliðinu eru á leiðinni til Egyptalands í janúar til að keppa á HM í handbolta. Þetta verður fyrsta stórmótið síðan að Aron tók alfarið við fyrirliðastöðu íslenska landsliðsins.

Aron er hins vegar í hópi margra sem telja það vera út í hött að halda heimsmeistaramót í miðjum heimsfaraldri.

„Það á að aflýsa þessu móti. Ég skil ekki hvers vegna er verið að fljúga okkur þagnað og láta okkur spila um verðlaun undir þessum kringumstæðum,“ sagði Aron Pálmarsson í viðtali við þýska miðilinn NDR.

Aron er ekki eina handboltastjarnan sem vill hætta við heimsmeistaramótið því í þeim hópi eru líka þýski landsliðsmaðurinn Patrick Wiencek og hinn króatíski Domagoj Duvnjak sem leikur með THW Kiel.

„Það er engin spurning að það á að aflýsa þessu móti. Það eru mikilvægari hlutir en HM, eins og heilsa fólks, og því miður gleymist það fljótt,“ sagði Patrick Wiencek. „Þetta er of hættulegt,“ sagði Domagoj Duvnjak.

TV2 í Danmörku segir frá þessum óánægjuröddum meðal bestu handboltamanna heims og þá er líka búist við því að fleiri stjörnur láti heyra í sér á næstunni.

Þjóðverjinn Uwe Gensheimer er aftur á móti í hópi þeirra sem telur að handboltinn þurfi á þessu heimsmeistaramóti að halda. 

„Á hverju ári þá horfa milljónir á HM í sjónvarpinu og það hjálpar íþróttinni okkar gríðarlega mikið. Við þurfum á þessu móti að halda,“ sagði Uwe Gensheimer.

Heimsmeistaramótið í handbolta í janúar átti að vera sögulegt mót því í fyrsta sinn taka þátt í því 32 þjóðir. Mótið er líka haldið í heimalandi forseta Alþjóða handboltasambandsins, Hassan Moustafa, sem eykur líkurnar á því að það verði pressað í gegn.

Danski landsliðsmaðurinn Henrik Møllgaard er viss um að þessu heimsmeistaramóti verði aldrei frestað.

„Málið er að þetta mót á að fara fram í Egyptalandi, hjá doktor Hassan Moustafa. Ég er því hundrað prósent viss um að þetta heimsmeistaramót fari fram. Hann mun ekki aflýsa því,“ sagði Henrik Møllgaard við TV 2 Sport.

Stærð mótsins með 32 liðum gerir það enn flóknara verkefni að halda slíkt mót og flækjustigið er mikið ekki síst þegar kórónuveiran herjar að úr öllum áttum.

Guðmundur Guðmundsson gat tilkynnt inn 35 leikmenn sem koma til greina í HM-hópinn hans en það eru sjö fleiri en vanalega. Þá verða tuttugu leikmenn í lokahópnum í stað átján eins og venjulega. Bæði kemur til vegna kórónuveirufaraldursins.

Ísland er í riðli með Portúgal, Alsír og Marokkó á HM en þrjú efstu liðin komst í milliriðil. Tvö lið úr hverjum milliriðli komast síðan í átta liða úrslit en heimsmeistaramótið klárast síðan á útsláttarkeppni milli átta bestu þjóðanna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.