Viðskipti innlent

Hækkunin „ó­neitan­lega sér­stök“ miðað við á­standið á vinnu­markaði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Atvinnuleysi er komið yfir 10 prósent á landinu en launavísitala hækkar á sama tíma.
Atvinnuleysi er komið yfir 10 prósent á landinu en launavísitala hækkar á sama tíma. Vísir/vilhelm

Launavísitalan hækkaði um 0,7% milli september og október samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,1%, sem er mesta ársbreyting frá því í apríl 2018. Launaþróunin er ekki í takt við ástandið á vinnumarkaði, þar sem atvinnuleysi eykst enn. Upp er komin „algerlega ný staða í íslenskri hagsögu,“ að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans sem birt var í dag.

Kaupmáttur eykst

Fram kemur í Hagsjánni að „árshækkunartaktur launavísitölunnar“ hafi verið rúmlega 4% allan seinni hluta árs 2019 en vel ofan við 6% allt frá því í apríl síðastliðnum.

„Þessi mikla hækkun launavísitölu er óneitanlega dálítið sérstök miðað við þann mikla slaka sem hefur verið á vinnumarkaði síðustu mánuði,“ segir í Hagsjánni. Hluti af hækkuninni sé líklega áhrif af hækkunum vegna nýgerðra kjarasamninga grunnskólakennara og hjúkrunarfræðinga.

Þá er kaupmáttaraukning síðan í fyrra enn töluverð, eða 3%, og kaupmáttur launa áfram „mjög mikill í sögulegu samhengi þrátt fyrir aukna verðbólgu á síðustu mánuðum“. Þá hækkuðu laun á almenna markaðnum um 6% á tímabilinu ágúst 2019 til sama mánaðar 2020 og um 8% hjá hinu opinbera.

Af starfsstéttum á almenna markaðnum hækkuðu laun verkafólks mest milli ágúst 2019 og 2020, um 7,8%. Laun skrifstofufólks hækkuðu næst mest, um 7,5%. Laun stjórnenda hækkuðu minnst á þessu tímabili, eða um 3,7%.

Langvarandi sérstaða Íslendinga á undanhaldi

Þá er bent á í Hagsjánni að atvinnuleysi sé enn að aukast og nú komið yfir 10%. Enn sé vinnumarkaðurinn þrunginn óvissu.

„Þrátt fyrir jákvæðar fréttir af þróun bóluefnis er óvissan um atvinnustigið enn mikil og því miður líklegt að töluvert atvinnuleysi verði langvinnt. Þessi jákvæða launaþróun er því ekki beint í takt við slakan vinnumarkað. Laun munu hækka samkvæmt kjarasamningum í upphafi næsta árs og haldi verðlagsþróun áfram með svipuðum hætti má búast við áframhaldandi kaupmáttaraukningu,“ segir í Hagsjánni.

„Þessi staða er algerlega ný í íslenskri hagsögu. Í kreppum til þessa hefur kaupmáttur launa yfirleitt lækkað verulega, en atvinnustigið haldið nokkuð vel. Þessar síðustu tvær kreppur eru sérstakar að því leyti að svo virðist sem sú langvarandi sérstaða okkar að ná að vernda atvinnustigið í kreppum sé á undanhaldi.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICESEA
5,57
15
466.479
HAGA
4,03
13
168.408
EIM
3,27
16
820.960
ICEAIR
3,12
91
366.226
SJOVA
2,73
19
125.097

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
VIS
0
15
233.274
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.