Menning

Sjokkerandi ferðalag Sóla um undirheima í fylgd Herra Hnetusmjörs

Jakob Bjarnar skrifar
Sóli Hólm segir að þetta sé bók um Herra Hnetusmjör, hins vegar geri Herra Hnetusmjör í því að tala um bókina sem ævisögu ekki síst til að æsa fólk upp sem leggur þröngan skilning í það orð.
Sóli Hólm segir að þetta sé bók um Herra Hnetusmjör, hins vegar geri Herra Hnetusmjör í því að tala um bókina sem ævisögu ekki síst til að æsa fólk upp sem leggur þröngan skilning í það orð. visir/vilhelm

Skemmtikrafturinn Sóli Hólm hefur skrifað ævisögu Herra Hnetusmjörs og er bókin nú komin í helstu verslanir. Þetta hljómar eins og byrjunin á brandara. En hér er ekkert grín í gangi. Ævisögur eru þannig vaxnar í hugum flestra að þar er farið yfir feril þess sem hefur marga fjöruna sopið en lítur yfir farinn veg að kvöldi sinnar ævi. Reynslunnar smiður sem gengið hefur götuna, öðlast þroska og nauðsynlega fjarlægð á umfjöllunarefnið sig sjálfan til að vega og meta, draga lærdóm af og miðla til annarra.

Árni Páll Árnason, aka Herra Hnetusmjör, er fæddur 1996. Fyrir þann sem hér heldur á penna og hefur í gegnum tíðina lesið býsna margar ævisögur, er óneitanlega sérkennilegt að lesa ævisögu 24 ára gamals manns. Drengs. Meira en helmingi yngri en þessi blaðamaður hér og reynir að fá þetta til að koma heim og saman.

Varnaglarnir slegnir

Útgefandinn Bjartur er sér fyllilega meðvitaður um þessa viðteknu skoðun eða nálgun því á bókarkápu er vitnað í sjálfan Jónas Hallgrímsson, ljóðalínur eftir hann hvar mórallinn er sá að reynsla verði ekki endilega í árum metin.

Margoft tvítugur

meir hefir lifað

svefnugum segg

er sjötugur hjarði.

Þá segir undirtitillinn sína sögu, þar er annar varnagli sleginn: Herra Hnetusmjör – hingað til.

„Jú, ef fólk hengir sig í orðið ævisaga þá er þetta frekar sérstakt, skulum við segja. Sjálfur tala ég alltaf um að þetta sé bók um Herra Hnetusmjör en hann gerir í því að kalla þetta ævisögu til þess að æsa einmitt upp fólk sem hengir sig í orðið ævisaga. Fyrst og fremst er þetta saga 24 ára gamals manns sem hefur frá mjög miklu að segja,“ segir Sóli Hólm í samtali við Vísi. Það er á honum að heyra að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem hann þarf að svara nákvæmlega þessari spurningu.

Herra Hnetusmjör á Hlustendaverðlaunum 957. Sóli segir að sjálfsöryggi hans sé gegnheilt.Visir/Daníel Thor

Á daginn kemur að þessi kvartaldar gamli maður sem kennir sig við Kópavog hefur frá ýmsu að segja. Þarna er fjallað um uppvöxtinn, íslenska rappsenan í brennidepli, farið yfir ótrúlegan feril Herra Hnetusmjörs og svo er sagt af alveg hreint óheyrilega mikilli neyslu fíknefna og þeim bömmer öllum. Og upprisu. Þetta er alkasaga. Já, þetta er djúsí, það vantar ekkert uppá það.

„Aldeilis ekki. Það er ótrúlegt hvað það er hægt að gera margt af sér á stuttum tíma með „hjálp“ réttra efna.“

Bitch og brennivínskjarkurinn

Til að gefa tilfinningu fyrir því hvað um ræðir grípum við niður í bókinni af handahófi en þar sem sagt er af rappslag á Hendrix. Herra Hnetusmjör hafði komið heldur skítlega fram við rapparann Alexander Jarl en forsagan var sú að hann hafði sakað Joe, samverkamann og félaga Herra Hnetusmjörs, um að hafa stolið töktum, eins og það heitir.

„Undir lok kvöldsins stóð ég fyrir utan staðinn og sneri baki í útganginn á staðnum. Joe sá Alexander og DJ-inn hans koma labbandi út og sagði mér að líta ekki við því þeir væru komnir útaf staðnum. Ég gerði hið gagnstæða og óð í áttina að þeim og bara „Yo! What´s up!“ Það var í raun glórulaust að ég væri að ögra honum því Alexander er fáránlega góður í MMA-bardagalist og hefði getað gengið frá mér á nokkrum sekúndum ef hann vildi. Ég var bara með brennivínskjark, og hugsaði þetta ekki til enda. En í staðinn fyrir að lemja mig tók Alexander aftur The high road. Hann var miður sín og spurði mig hvort þetta væri búið núna. Ég sagðist vera tilbúinn að leggja niður vopnin og við tókumst í hendur.

Við höfum hvorugur talað um þetta opinberlega en við höfum tekið gigg saman eftir þetta og bara hlegið að þessu.

Kvöldið var samt ekki búið því þegar ég kom heim fór pródúserinn hans að senda mér skilaboð á Facebook, þá var hann kominn með brennivínskjark. Ég hafði nefnilega sagt við hann og Alla að ég hefði nú heyrt að hann hefði líka verið að stela töktum.

„Vona að kókaínið sé runnið af þér, segðu mér þá hver sakaði mig um stuld. Eða ertu alltof mikið bitch til að standa undir orðum þínum,“ skrifaði hann mér. Ég svaraði honum á móti. „Ekki að það komi þér við en ég kom ekki nálægt kókaíni í kvöld. Hugsaðu þig tvisvar um áður en þú byrjar með stæla man og farðu varlega áður en þú kallar mig bitch. Við Alli erum búnir að sættast en ef þú ætlar að eyðileggja það með einhverju drugtalk er ég down í allt.“

(Bls. 149)

Bullandi sjálfstraust Herra Hnetusmjörs

Hvernig kom þetta verkefni til?

„Við Árni Páll vorum að skemmta saman í Dublin á árshátíð Toyota vorið 2019. Við ferðuðumst þangað saman ásamt DJ-inum hans, Agli Spegli, og vorum að hanga saman þarna úti. Á flugvellinum úti þegar við vorum á fara til baka byrjaði hann að spyrja mig grunsamlega mikið út í ævisögu Gylfa Ægis sem ég skrifaði árið 2009. Hann var forvitinn um hvernig þetta gengi fyrir sig, meðal annars um hvort það væri eitthvað upp úr þessu að hafa? Á Íslandi kvaddi hann mig svo með orðunum: Ég heyri í þér eftir tvö ár og við gerum ævisöguna mína. Ég sagði bara ók.“

Seinna það sama sumar fóru þeir saman til Ítalíu.

„Já, til að skemmta í brúðkaupi aldarinnar og ræddum þá eitthvað aðeins um þetta. Síðan hafði hann bara samband við mig strax síðasta haust og spurði hvort við ættum ekki bara að byrja á þessu? Eins og þú heyrir þá er þessi gæi maður sem gerir hlutina.“

Já þetta er rogginn drengur með sjálfstraustið í góðu lagi?

„Hann er með mikið sjálfstraust og það er ekki falskt. Hann segist ekki bara vera bestur og fer svo heim og grætur í koddann. Hann hefur í alvöru trú á sjálfum sér. Að sama skapi er þetta svo yndislegur og einlægur drengur og bara svona hlýr og góður mömmustrákur — eins og ég sjálfur.“

Sjúddirarí Rei, fyrrnefnd bók Sóla um Gylfa Ægisson kom út 2009 en þá var Sóli 26 ára gamall en Gylfi 73. Nú er Sóli seníorinn í partíinu?

Heldur betur! Það eru þrettán ár milli okkar Árna í aldri.“

Fann loks mann á pari við Gylfa Ægisson

Óhætt er að segja að Sjúddirarí Rei hafi verið einstaklega vel heppnuð bók. Hún seldist í tæplega fimm þúsund eintökum og Sóli segir að honum þyki afar vænt um það verk. Það sver sig í ætt athyglisverðrar undirtegundar bókmennta sem eru ævisögur poppara. Þar er komin góð hilla. Hvernig stendur á því að Sóli hefur lagt þá grein fyrir sig?

„Ég hef nú ekki lagt það meira fyrir mig en að gera þetta á ellefu ára fresti,“ segir Sóli og snúðugur tónninn er til þess fallinn að má gáfusvipinn af andliti blaðamannsins.

„En ég held að þetta sé hrein og klár tilviljun. Fyrst og fremst vil ég skrifa sögur sem ég myndi lesa sjálfur og ef maður ætlar að vera að skrifa sögur annarra þá þarf þrennt að ganga upp og liggja fyrir: 1. Aðilinn þarf að hafa frá einhverju merkilegu að segja. 2. Hann/hún þarf að vera tilbúinn að segja það. 3. Hann/hún þarf að treysta mér fyrir því að skrifa söguna. Hingað til hef ég ekki fundið verkefni sem hefur heillað mig aftur eða allt þar til að Árni nálgaðist mig með þessa hugmynd.“

Sóli er í stórframkvæmdum við hús sitt sem stendur við Hringbraut. vísir/vilhelm

Það hefur þá reynst erfitt að finna einhvern sem stenst samanburð við Gylfa?

„Það hljómar kannski skringilega að segja það, en já. Saga Gylfa var svo fáránlega viðburðarík og var í anda Góða dátans Svejk og Forrest Gump. Gæinn var einhvern veginn alls staðar. Ég vildi ekki fara að skrifa sögu um einhvern bara því hann væri svo frægur og vinsæll. Fólk verður að hafa frá einhverju að segja. Nú tel ég mig hafa fundið annan slíkan einstakling.“

Menn fólksins

Annan Gylfa? Sko, það stóð reyndar ekki til að þetta viðtal fjallaði um Gylfa Ægisson en þetta liggur of vel við höggi, það er samanburðurinn. Þeir Gylfi og Herra Hnetusmjör eiga kannski talsvert meira sameiginlegt en ætla mætti í fyrstu?

Já, ég ætla nú ekki að segja að þeir séu kannski líkir en mögulega hefði Gylfi orðið rappari hefði hans fæðst 50 árum seinna. En það sem er líkt með þeim er að þeir lifa hratt og taka sukkið út ungir. Gylfi entist að vísu talsvert lengur í sukkinu, eitthvað fram yfir þrítugt. Hann var líka „bara“ fyllibytta meðan Árni var á kafi í dópi. Það er þó ekki það eina sem er líkt með þeim því þeir eru báðir tónlistarmenn sem höfða vel til alþýðunnar en fá litla sem enga viðurkenningu frá menningarvitum þjóðarinnar.

Sóli fór á dýpið með viðfangsefni sitt sem dró ekkert undan. Herra Hnetusmjör var kominn býsna djúpt í neysluna á tímabili.visir/vilhelm

Árni Páll hefur aldrei unnið til Íslensku tónlistarverðlaunanna en sópar hins vegar að sér öllum verðlaunum sem valin eru af fólkinu og lögum hans hefur verið streymt í milljónavís. Það var eins með Gylfa, krítikerar töluðu hann niður en plöturnar seldust í bílförmum.“

Nú hef ég þig grunaðan um að vera meira í dreifbýlistúttuballlagakatalógnum, Stjórninni og Pálma Gunnars frekar en rappinu. Hvort ertu meira fyrir lög eftir og með Gylfa eða Herra Hnetusmjöri? Hvort hendirðu sjúddírarírei undir nálina heima eða einhverju grjóthörðu Jó motherfucker in da house?

„Þetta er alveg hárrétt metið,“ segir Sóli um vísanir blaðamanns í tónlistarsmekk sinn um leið og það stendur skrifað á enni hans að hann telur blaðamanninn heldur fávísan um rappið. Sem er rétt.

„Grjóthörðu jó motherfucker in da house? Jæja. Já. En þetta er einmitt það sem Árni hefur verið skammaður fyrir, að vera ekki lengur nógu harður rappari því hann hefur fært sig mikið yfir í poppið síðustu misseri enda góður söngvari. Þá fór ég fyrst að hlusta á hann. Ég held svona án gríns, og þá er ég ekki að taka einhvern leiðinda diplómata á þetta, að þeir eigi svipað mörg lög sem ég hendi á fóninn. Þá hlusta ég frekar á poppaða stöffið hjá Herranum og 70’s stöffið hans Gylfa.“

Svipaðir um margt nema þegar kemur að dópneyslu

Eftir að hafa unnið náið með Gylfa við ritun Sjúddirarí Rei datt hann sjálfkrafa inn sem lykilpersóna í þínu eftirhermuuppistandi; eru það ekki augljós örlög Herra Hnetusmjörs?

„Það væri óskandi mín vegna. Það er nefnilega fínt upp úr því að hafa að herma eftir frægu fólki – stórum nöfnum. Ég hins vegar er ekki enn búinn að detta á rétta tóninn í Hnetusmjörs eftirhermunni og samkvæmt minni reynslu þá kemur eftirherman aldrei ef hún dettur ekki inn strax að mestu leyti. Þannig að trúlega er hann að sleppa, strákskrattinn.“

Ef við förum hratt yfir sögu þá sýnist mér sem þið eigið ýmislegt sameiginlegt þú ævisagnaritarinn og Herra Hnetusmjör: Alist upp í Hveragerði, þurfið að takast á við skilnað foreldra, báðir chubby og þú á kunnuglegum slóðum en svo þegar söguhetjan er komin í Kópavoginn og byrjar að troða sig út af allskyns dópi skilja leiðir... Hvernig var það fyrir þig að fara með honum í þetta ferðalag í undirheimana og dópið?

„Heyrðu, góði! Ég er stundum chubby, oftast ekki!“

Já, fyrirgefðu.

„Hmmm. Já, jæja. Nóg um það. Já, við eigum mjög margt sameiginlegt og meira en það sem þú telur upp. Okkur dreymdi báða um að verða fréttaþulur í sjónvarpi. Ég held að hann hafi líka verið mjög líkur mér sem unglingur nema hann reykti gras en ég drakk bara bjór og Koskenkorva vodka, því hann var ódýrastur. 

Helsti starfi Sóla undanfarin ár er að koma fram sem skemmtikraftur en skemmtanir sínar byggir hann til dæmis á eftirhermum sem alltaf leggjast vel í landsmenn. Hins vegar er það svo að Herra Hnetusmjör hefur ekki dottið inn í karakterasafn Sóla, og fyrst það gerðist ekki strax er líklegt að hann sleppi alveg, strákskrattinn.visir/vilhelm

Báðir vorum við sprelligosar í skólanum sem elskuðu að stíga á stokk. Ferðalagið um dópheimana var annars mjög forvitnilegt og um leið sjokkerandi. Árni byrjaði að nota dóp löngu áður en hann byrjaði að drekka og það er held ég raunin hjá ansi mörgum unglingum í dag. Það hefur margt breyst þó ég sé ekki nema þrettán árum eldri en Árni. Í mínum kúltúr byrjuðu menn snemma að drekka og þeir sem fóru út í dóp gerðu það þegar vínið var ekki lengur nóg. Ég er reyndar alveg svakalega blautur bakvið eyrun í þessu dópi þannig að ég þurfti að spyrja eins og barn út í virkni hinna og þessara dóptegunda sem Árni sagði mér frá.“

Á ferðalagi um kolólöglegar lendur

Farið er djúpt í dópið. Fannst þér óþægilegt að fjalla um þetta?

„Nei, mér fannst það ekki beint óþægilegt. Frekar hugsaði ég bara að þarna væru góðar sögur til að skrifa. Það hjálpaði líka að Árna fannst ekkert erfitt að tala um neysluna af því að hann hefur unnið svo vel úr öllu. Það var líka megin forsenda þess að hægt væri að gera þetta. Ég hefði aldrei viljað skrifa þessa sögu um mann sem væri bara búinn að vera edrú í eitt ár.“

Þetta er einskonar ævisaga, eins og áður hefur verið komið inná sem þá lýtur sem slík sagnfræðilegum lögmálum. En þegar þið eruð komnir inn á grátt svæði, segjum það bara, kolólöglegar lendur, þá er nöfnum ýmissa sem við sögu koma breytt. Var það ekkert snúið?

„Já, við breyttum þó nokkrum nöfnum í bókinni og það var fyrst og fremst til að koma ekki óviðkomandi aðilum í óþarfa vandræði. Það eru þá frekar sögur af atburðum en tilteknu fólki. Því þó að Árni sé tilbúinn að vera heiðarlegur með sína neyslu þá er það ekki hans að segja ógæfusögu annarra. En jú svo eru auðvitað alltaf hið minnsta þrjár útgáfur af hverri sögu; „mine and yours and then the truth“. Þannig eru svona frásagnir auðvitað aldrei 100 prósent nákvæmar, tala nú ekki um þegar menn eru kafdópaðir.“

En að stofni til eru nöfnin þó samviskusamlega og rétt til færð.

„Já. Eins og til dæmis nafn Birgis Hákonar vinar Árna. Það var þó gert með hans samþykki enda hefur hann talað og rappað opinskátt um sinn fyrri lífsstíl. Hann hefur í dag snúið við blaðinu. Saga hans er hinsvegar stórmerkileg og vonandi fæ ég einhvern tímann tækifæri til að segja þá sögu með einum eða öðrum hætti.“

Dópa eins og ég get og flyt svo bara uppí Kjós

Eru þessar miklu og sláandi neyslusögur hugsaðar að einhverju leyti þannig að þær hafi forvarnargildi?

„Þær eru fyrst og fremst hugsaðar sem sögur og raunsönn lýsing af fíklinum Árna Páli. Ef þær virka sem forvörn þá er það auðvitað frábært og vonandi virkar upprisa Árna virkum fíklum sem hvatning til að snúa við blaðinu. Bókin er hins vegar ekki skrifuð sem forvarnabók þó hún hjálpi vonandi sem flestum.“

Sóli Hólm segir að ef einhver geti fundið í sögunni víti til að vita um til að varast það sé það fagnaðarefni. Hins vegar getur forvarnarstarfið verið hált svell.visir/vilhelm

Þetta svar er svo vandað að það nánast sparkar fótum undan næstu spurningu sem átti að fjalla um það sem einhver hefur bent á, þá í tengslum við forvarnarstarf Bubba, að það væri nú ekkert sérstaklega vænlegt til árangurs að snúa spenntum ungmennum af þessari slóð með því að tromma upp sem vinsæl poppstjarna sem hefur farið í öldudal og svo risið sem fuglinn Fönix, flottari en nokkru sinni. Þá hljóta litlu asnarnir að hugsa: Nákvæmlega svona ætla ég að vera!

„Þar er einmitt önnur hlið á peningnum. Auðvitað getur einhver horft á Árna Pál eins og Bubba og hugsað: Ég dópa bara í nokkur ár og flyt svo upp í Kjós þar sem ég rækta rósir og nýt lífsins með fallegu og kláru konunni minni og fallegu og góðu börnunum okkar. Það gleymist að þeir voru ógeðslega heppnir að fá tækifæri til að hætta.“

Rapplingó og bókarskrif

Bókin rennur alveg ferlega vel, og ég geri ráð fyrir því að hún sé þannig hugsuð og lögð upp?

„Þetta er held ég bara minn stíll. Ég skrifa einfaldlega bara þannig texta og vil hafa þetta sem liprast.“

Nú talar Herra Hnetusmjör mállýsku sem er rappslettuskotin. Það hlýtur að hafa verið handleggur að koma því yfir á bókmál? Að halda kúlinu en að íslenskan sé sæmilega fljótandi og ekki til þess fallin að gera sjálfskipaða varðmenn íslenskunnar snældusnarvitlausa?

Jú. Mín leið var sú að skrifa þetta á frekar hefðbundinni þægilegri íslensku en nota samt frasana inn á milli. Sem dæmi þá talar hann á einum stað um að hann og vinir hans hafi strax farið að „reyna að skora kók“. 

Það gat verið línudans að halda til haga rappskotinni mállýsku Herra Hnetusmjörs og svo skrifa bókmál jafnframt. En bókin rennur vel, það er óhætt að segja.visir/vilhelm

Þar fannst mér mikilvægt að halda því orðalagi í staðinn fyrir að segja: „Við fórum að reyna að verða okkur út um kókaín.“ Reyndar er það svo að Árni talar mjög góða íslensku dagsdaglega og hefur fínan orðaforða. Hann talar ekkert voða mikið um að „púlla upp“ við mig allavega.“

Sóli segir að vinnan við bókina hafi verið um tíu eða ellefu mánuðir, sé allt talið.

„Ég vinn þetta yfirleitt, eða í þessi tvö skipti sem ég hef skrifað ævisögu, þannig að ég tek viðtölin og fæ þá heildstæða sýn á ævina áður en ég fer að skrifa eitthvað. Svo er hægt að bæta við fleiri viðtölum til að kafa dýpra.“

Og ertu kominn með einhvern annan í sigtið sem næsta viðfangsefni?

„Nei, ekki þannig. Einhverjar lauslegar þreifingar en ekkert sem gerist á næstu misserum. Mig langar að skrifa skáldsögu næst en það liggur ekkert á. Ég er blessunarlega með annan feril í gangi líka þannig að þetta kemur bara þegar það kemur.“

Já, þú ætlar ekki að helga þig ævisagnagerð tónlistarmanna sem hafa marga fjöruna sopið?

„Nei það er ekki planið, og hefur svo sem aldrei verið. Ég hef eiginlega aldrei planað neitt. Er allt í einu staddur á einhverjum stað að gera eitthvað og blessunarlega hefur mér tekist að gera flest allt vel hingað til.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×