Körfubolti

Harden hafnaði 6,8 milljörðum á ári og vill komast til Brooklyn Nets

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden vill komast í burtu frá Houston Rockets.
James Harden vill komast í burtu frá Houston Rockets. EPA-EFE/ERIK S. LESSER

Framtíð körfuboltamannsins James Harden hjá Houston Rockets er í uppnámi ef marka má fréttir frá Bandaríkjunum.

James Harden ætlar ekki að framlengja samning sinn við Houston Rockets þrátt fyrir að það séu miklir peningar í boði fyrir hann.

ESPN hefur heimildir fyrir því að Harden hafi hafnað því að framlengja samning sinn við Houston Rockets sem hefði þýtt að hann hefði orðið fyrsti leikmaðurinn til að fá 50 milljónir dollara á ári í laun eða meira 6,8 milljarða íslenskra króna.

Heimildarmenn ESPN segja að James Harden vilji losna frá Houston Rockets og þá komast til Brooklyn Nets.

Harden á eftir þrjú ár af samningi sínum við Houston Rockets og á að fá 133 milljónir dollara fyrir þau. Houston Rockets er búið að bjóða honum 103 milljónir í viðbót fyrir tvö ár ofan á þessi þrjú ár.

Harden virðist hins vegar ekki sjá framtíð sína hjá Houston Rockets og er að reyna að pressa á það að vera skipt til Brooklyn Nets.

James Harden hefur verið í sambandi við þá Kevin Durant og Kyrie Irving sem eru að fara að hefja sitt fyrsta tímabil saman hjá Brooklyn Nets. Það er ljóst að lið með Kevin Durant, Kyrie Irving og James Harden yrði líklegt til afreka í NBA-deildinni.

Brooklyn Nets og Houston Rockets hafa rætt málin en ekkert hefur ennþá komið út úr því samkvæmt frétt ESPN.

Houston Rockets vill auðvitað fá mikið fyrir sinn besta mann og félagið er líka í góðri stöðu og með tímann með sér í liði af því að James Harden á enn eftir þrjú ár af samningi sínum.

James Harden hefur verið stigakóngur NBA-deildarinnar undanfarin þrjú tímabil en á því síðasta þá skoraði hann 34,3 stig í leik auk þess að gefa 7,5 stoðsendingar og taka 6,6 fráköst. Hann hefur skorað meira en 30 stig í leik á þessum þremur síðustu tímabilum

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.