Körfubolti

Góðkunningi íslenska landsliðsins frá Eurobasket er á leið til LA Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dennis Schröder í leiknum á móti Íslandi á Eurobasket í Berlín haustið 2015.
Dennis Schröder í leiknum á móti Íslandi á Eurobasket í Berlín haustið 2015. EPA/LUKAS SCHULZE

NBA-meistarar Los Angeles Lakers eru byrjaðir að setja saman lið fyrir titilvörnina sína og þeir hafa samkvæmt bandarískum fjölmiðlum sótt sér þýskan bakvörð.

Los Angeles Lakers hefur samkvæmt fréttum frá Bandaríkjunum samið um leikmannaskipti við Oklahoma City Thunder en meistararnir fá þá þýska bakvörðinn Dennis Schröder í skiptum fyrir 28. valrétt í nýliðavalinu á miðvikudagskvöldið.

Dennis Schröder er 27 ára gamall og hefur verið eftirsóttur af liðum sem sóttust eftir skiptum við Oklahoma City Thunder.

Lakers mun væntanlega missa bakverðina Rajon Rondo og Avery Bradley sem eru með lausa samninga og Lakers lagði því kapp á það að fá Schröder.

Schröder á eitt ár eftir af samningi sínum og lokaárið gefur honum 15,5 milljónir dollara í aðra hönd eða meira en 2,1 milljarð íslenskra króna.

Schröder átti mjög gott tímabil með Oklahoma City Thunder liðinu en hann var með 18,9 stig og 4,0 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Hann byrjaði NBA feril sinn í litlu hlutverki hjá Atlanta Hawks árið 2013 en hækkaði meðalskor sitt síðan á fjórum tímabilum í röð þar til að hann skoraði 19,4 stig og gaf 6,2 stoðsendingar að meðaltali í leik 2017-18 tímabilið.

Það muna eflaust margir eftir Dennis Schröder frá Eurobasket árið 2015 þegar hann lék með þýska landsliðinu á móti því íslenska í fyrsta leik Íslands á stórmóti í körfubolta.

Dennis Schröder var stigahæstur í þýska landsliðinu ásamt Dirk Nowitzki með 15 stig í leiknum og það var líka gaman að fylgjast með einvígi hans og Harðar Axels Vilhjálmssonar í leiknum.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.