Viðskipti erlent

Goog­le Photos hættir að bjóða upp á ó­tak­markað magn mynda ó­keypis

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Google Photos er gríðarlega vinsælt myndaforrit um allan heim.
Google Photos er gríðarlega vinsælt myndaforrit um allan heim.

Myndaforritið Google Photos mun hætta að bjóða viðskiptavinum sínum að hlaða upp ótakmörkuðu magni mynda ókeypis.

Eins og nafnið gefur til kynna er forritið rekið af netrisanum Google en þegar fyrirtækið kynnti þessa þjónustu sína árið 2015 lofaði það ótakmörkuðu magni mynda og myndskeiða sem hægt yrði að hlaða upp ókeypis.

Að því er fram kemur í frétt BBC mun Google nú takmarka gagnamagnið sem hægt er að fá frítt við fimmtán gígabæt fyrir hvern reikning á Google Photos, sem deilt er með vinsælum forritum fyrirtækisins á borð við Gmail og Google Drive.

Hver sem vill geyma fleiri myndir en það mun þurfa að borga Google fyrir geymsluna. Breytingin tekur gildi 1. júní 2021. Myndir sem er hlaðið upp fyrir þann tíma munu ekki telja með í takmörkuðu gagnamagni á Google Photos heldur aðeins myndir sem hlaðið er upp eftir þann tíma.

„Þegar við segjum minningar til æviloka þá meinum við það svo sannarlega,“ sagði í yfirlýsingu Google þegar Google Photos var hleypt af stokkunum árið 2015. Með fylgdi loforðið um ótakmarkað magn sem hægt yrði að hlaða upp ókeypis.

Nú segir fyrirtækið hins vegar að sá gríðarlegi vöxtur sem verið hefur hjá Google Photos sé ekki sjálfbær. Nauðsynlegt sé að gera þessar breytingar til þess að mæta þörfum notenda Google Photos til lengri tíma.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×