Handbolti

Rífur upp drumba og grjót í fjörunni og hefur aldrei verið eins sterkur

Sindri Sverrisson skrifar
Kári Kristján Kristjánsson með stein á lofti í fjörunni.
Kári Kristján Kristjánsson með stein á lofti í fjörunni. stöð 2 sport

Kári Kristján Kristjánsson fer sínar eigin leiðir til að halda sér við nú þegar handboltaæfingar eru bannaðar vegna kórónuveirufaraldursins.

Henry Birgir Gunnarsson fann Kára í fjöru, ef svo má segja, í Vestmannaeyjum á dögunum og kynnti sér óhefðbundnar æfingar línumannsins öfluga. Kári segist aldrei hafa verið sterkari en eftir að hann fór að stunda þessar aflraunaæfingar, þar sem hann reynir sig við drumba og þunga steina. Hvernig datt honum það í hug?

„Ég ætla nú ekki að taka heiðurinn að þessu. Þegar maður eldist í þessu „bíói“ þá þarf maður alltaf nýja áskorun. Það er ekkert alltaf, þó það sé oft, gaman að gera sama hlutinn ár eftir ár. Georg Ögmundsson, kraftajötunn, var sjúkraþjálfari hjá okkur mjög lengi og hefur verið að þruma inn styrknum hjá okkur. Hann fékk mig til að drulla mér út að finna einhverja þunga hluti. Mér finnst þetta alveg spennandi,“ segir Kári.

Þetta gerist ekki mikið harðara

Æfingarnar eru ekki bara spennandi heldur skila þær árangri, því Kári kveðst aldrei hafa verið sterkari:

„Mér finnst það. Gullið við þessar æfingar er að maður veit ekki hvað hluturinn er þungur, verður að koma honum upp, og með þungan stein í fanginu þá er allt kerfið í gangi. Hvort sem það er læri, rass, bak eða brjóstkassi. Maður er allan tímann að reyna að finna leið til að drulla honum upp.“

Kári svarar í kaldhæðnum tóni þegar hann er spurður hvort þessar æfingar séu ekki bara á dagskránni nú þegar „loksins“ sé komið bann frá hefðbundnum æfingum:

„Já, maður var eiginlega ógeðslega spenntur fyrir þessum fréttum. Geggjað að komast aftur út og henda sér í kuldann og steininn,“ sagði Kári léttur, en bætti við: „Þetta verður samt ekki mikið harðara en þetta!“

Innslagið má sjá hér að neðan.

Klippa: Seinni bylgjan: Kári Kristján í fjörunniFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.