Viðskipti innlent

Milljón á mánuði lágmark en 1,3 milljónir ef maki kemur með

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nýja reglugerðin er að frumkvæði ferðamálaráðherra en nýtur stuðnings dóms- og fjármálaráðherra.
Nýja reglugerðin er að frumkvæði ferðamálaráðherra en nýtur stuðnings dóms- og fjármálaráðherra. Stjórnarráðið

Ríkisstjórnin hefur hrint af stað markaðsátaki og ætlar að heimila tekjuháum einstaklingum utan Evrópska efnahagssvæðisins að stunda vinnu sína hjá erlendum fyrirtækjum hér á landi í fjarvinnu í allt að sex mánuði. Viðkomandi þarf að hafa að lágmarki eina milljón króna í laun á mánuði og 1,3 milljónir sé planið að hafa maka sína með.

Um markaðsverkefni er að ræða og mun Íslandsstofa halda utan um upplýsingagjöf og kynningarstarf aðgerðarinnar.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir að ferðamála-, iðnaðar, og nýsköpunarráðherra, dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafi lagt tillöguna fram. Með breytingunni verði þeim ríkisborgurum, sem eru undanþegnir áritunarskyldu, heimilt að sækja um langtímavegabréfsáritun á Íslandi fyrir starfsmenn í fjarvinnu og fjölskyldur þeirra án þess að þurfa að flytja lögheimili til landsins eða fá kennitölur.

„Í kjölfar COVID-19 faraldursins hafa fjöldamörg fyrirtæki á heimsvísu opnað á fjarvinnu sem áður studdu ekki við það. Það er stór breyting og starfsfólk sem getur unnið fjarvinnu um allan heim er byrjað að líta í kringum sig að öðrum dvalarstað, þar sem þau þurfa ekki að hafa búsetu á sama stað og þau starfa,“ segir í tilkynningunni.

Helmingi styttra leyfi ef sótt er um eftir komu til landsins

Í stjórnartíðindum er greint frá breytingunni sem verður á reglugerð um útlendinga. Þar kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem undanþeginn er áritunarskyldu langtímavegabréfsáritun í allt að 180 daga til fjarvinnu sæki viðkomandi um fyrir komu til landsins. Sé hann kominn til landsins er heimilt að veita leyfi til 90 daga.

Útlendingur sem sækir um langtímavegabréfsáritun skal meðal annars sýna fram á erlendar tekjur sem samsvara einni milljón króna á mánuði. Ef maki er með í för er miðað við 1,3 milljónir króna.

Sé barn undir átján ára með í för þarf að sýna fram á staðfestingu að barnið fái kennslu í skóla í heimaríki eða samþykki íslensks skóla að taka við barninu.

Að neðan má sjá tilkynninguna í heild frá stjórnarráðinu.

Ferðamála-, iðnaðar, og nýsköpunarráðherra, dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra hafa lagt fram minnisblað fyrir ríkisstjórn um aðgerðir til þess að gera erlendum ríkisborgurum sem eru utan EES kleift að dvelja á Íslandi í allt að sex mánuði og stunda vinnu sína hjá erlendum fyrirtækjum í fjarvinnu. Með breytingunni verður þeim ríkisborgurum, sem eru undanþegnir áritunarskyldu, heimilt að sækja um langtímavegabréfsáritun á Íslandi fyrir starfsmenn í fjarvinnu og fjölskyldur þeirra án þess að þurfa að flytja lögheimili til landsins eða fá kennitölur.

Í kjölfar COVID-19 faraldursins hafa fjöldamörg fyrirtæki á heimsvísu opnað á fjarvinnu sem áður studdu ekki við það. Það er stór breyting og starfsfólk sem getur unnið fjarvinnu um allan heim er byrjað að líta í kringum sig að öðrum dvalarstað, þar sem þau þurfa ekki að hafa búsetu á sama stað og þau starfa.

„Til að byggja upp útflutningsgreinar byggðar á hugviti þurfum við að búa til umhverfi, suðupott fólks með hugmyndir og hæfni sem kynnist, lærir af hvert öðru, og býr til tækifæri framtíðarinnar. Með því að opna nú fyrir og auðvelda starfsfólki að vinna frá Íslandi, bætum við þekkingu og tengingum inn í íslenska umhverfið,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Að frumkvæði nýsköpunarráðherra hefur undanfarna mánuði verið unnið að því, í samvinnu við dómsmálaráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og Skattinn ofl., að útfæra heimild fyrir einstaklinga sem eru í föstu ráðningarsambandi við erlend fyrirtæki að dvelja og starfa hér á landi í sex mánuði. Fram til þessa hefur aðeins verið hægt að dvelja hér á landi í 90 daga við slíkar aðstæður. Til að fá heimild fyrir lengri dvöl þarf viðkomandi að sýna fram á ráðningarsamband, tekjur og sjúkratryggingar. Áfram verður unnið að því að skoða framkvæmdina til að hægt verði að bjóða upp á dvöl til enn lengri tíma. Samstarf og samráð um það mun hefjast sem fyrst um það hvernig skattamál og dvalarheimildir yrðu útfærðar. Það mun kalla á víðtækt samstarf.

„Við höfum sérstöðu hvað varðar landlegu, tengjum tímabelti austur og vestur Evrópu við austur- og mið Bandaríkin. Við höfum upp á mikið að bjóða fyrir erlenda sérfræðinga og getum lært mikið af þeim. Einn helsti veikleiki íslenska nýsköpunarumhverfisins eru tengingar okkar við útlönd. Með því að hvetja fjarvinnufólk til að koma til Íslands erum við að minnka heiminn og búa til mikilvægar tengingar sem annars væri erfitt að koma á. Nú höfum við stigið þetta mikilvæga skref en ætlum að halda áfram vinnu við að stíga enn stærri skref svo við getum boðið upp á enn lengri dvöl íslensku samfélagi til hagsbóta,“ segir Þórdís Kolbrún.

Breytingin sem gerð er í dag kallar ekki á lagabreytingar, en dómsmálaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra, undirrituðu í dag breytingar á reglugerðum um útlendinga og reglugerð á tekjuskatti og fasta starfstöð.

„Við ætlum að tryggja að út frá skattahliðinni sé ekkert sem kemur í veg fyrir að hægt verði að nýta þann möguleika að fá hingað tímabundið til starfa einstaklinga sem starfa hjá erlendum fyrirtækjum, en þessir sérfræðingar búa yfir verðmætri hæfni og þekkingu. Í þessu felast ótal tækifæri og í viðspyrnunni við kórónuveirufaraldrinum er mikilvægt að horfa til þess hvernig við getum styrkt efnahagslega stöðu okkar með fjölbreyttum hætti, meðal annars með nýjum tengslum og þekkingu á vettvangi nýsköpunar og rannsókna,” segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

„Ég hef verið fylgjandi því að fólk utan evrópska efnahagssvæðisins hafi aukna möguleika til að koma hér til starfa. Þróun tækni kallar á það að við séum opin og sveigjanleg gagnvart vaxandi tækifærum sem skapast þegar sífellt fleiri störf eru óháð dvalarstað. Regluverkið þarf að taka mið af þessu og samvinna og sameiginlegur vilji ráðuneyta er nauðsynleg forsenda þess að vel takist til,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.

Íslandsstofa mun halda utan um upplýsingagjöf og kynningarstarf aðgerðarinnar.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×