Viðskipti innlent

Baader kaupir Skagann 3X

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X, tók við verðlaunum frá forseta Íslands árið 2017 fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum og þjónustu á erlendum markaði.
Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans 3X, tók við verðlaunum frá forseta Íslands árið 2017 fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum og þjónustu á erlendum markaði.

Baader hefur gengið frá samningum um kaup á meirihluta í Skaganum 3X. Þetta kemur fram í tilkynningu. Viðskiptin eru háð venjubundnum fyrirvörum um samþykki opinberra aðila. Ráðgert er að þeim fyrirvörum verði aflétt í ársbyrjun 2021.

„Samstarf þetta er okkur mikið gleðiefni og ánægjulegt að geta í sameiningu boðið viðskiptavinum okkar heildstætt vöruframboð af framúrskarandi lausnum við vinnslu sjávarafurða“ segir Petra Baader, forstjóri Baader.

„Með því að samtvinna áratuga sköpun, þekkingu og reynslu Baader við okkar sérþekkingu byggða á samstarfi og nálægð við öflugan sjávarútveg munum við efla þróun og nýsköpun til muna“ segir Ingólfur Árnason, forstjóri Skagans 3X.

Ingólfur Árnason mun áfram gegna starfi forstjóra Skagans 3X og mun njóta liðsinnis núverandi stjórnendateymis fyrirtækisins. Að uppfylltum fyrirvörum samningsins mun sölu- og markaðsstarf Skagans 3X verða samþætt hinu öfluga og víðfeðma sölukerfi Baader.

Þar til fyrirvörum samnings verður aflétt mun núverandi starfsemi fyrirtækjanna haldast óbreytt.

Sameiginleg yfirlýsing bæjarstjórna Akraness og Ísafjarðarbæjar

Í morgun var tilkynnt í fjölmiðlum að fyrirtækið Skaginn 3X og stórfyrirtækið Baader hafi ákveðið að sameina krafta sína á næsta ári, með fyrirvara um samþykki þar til bærra eftirlitsstofnana.

Um afar ánægjulegar fréttir er að ræða, ekki síst á þeim sérstöku tímum sem nú blasa við í íslensku samfélagi og heimsbyggðinni allri.

Skaginn 3X er með starfsstöðvar bæði á Akranesi og Ísafirði. Á sameiginlegum fundi í gærkvöldi fengu bæjarfulltrúar sérstaka kynningu á þessum áformum frá Ingólfi Árnasyni forstjóra Skaginn 3X og nokkrum lykilstarfsmönnum.

Ljóst er að í samrekstri Skaginn 3X og Baader felast mikil tækifæri til að vaxtar með aukinni framleiðslu afurða fyrirtækisins og sölu þeirra. Þá er ljóst að einnig felast í þessu tækifæri til að stórefla rannsókna og þróunarstarf til hagsbóta fyrir starfsfólk og íslenskt samfélag.

Einhugur er meðal bæjarfulltrúa um að fylgja fyrirtækjunum í þessari vegferð enda er fyrirtækið Skaginn 3X með sterkar rætur í báðum bæjarfélögum.

Ástæða er til að fagna þessum tímamótum og óska fyrirtækinu og bæjarbúum til hamingju með áfangann og þessi merku tíðindi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×