Samstarf

6,3 milljónir matarskammta enda í ruslinu

Máltíð.is
Máltíð er ráðgjafa og afleysingaþjónusta fyrir mötuneyti. Verkefnið er eitt af tíu stigahæstu hugmyndunum í Gullegginu í ár, frumkvöðlasamkeppni Icelandic Startups
Máltíð er ráðgjafa og afleysingaþjónusta fyrir mötuneyti. Verkefnið er eitt af tíu stigahæstu hugmyndunum í Gullegginu í ár, frumkvöðlasamkeppni Icelandic Startups

„Allur skólamatur á að vera næringarútreiknaður samkvæmt lögum sem sett voru árið 2008. Það vita hins vegar ekki allir að þetta er fest í lög og þá hafa fæstir matreiðslumenn í skólaeldhúsum tíma, tæki og tól eða mannskap með þekkingu, til að fylgja þeim eftir. Við bjóðum upp á aðstoð,“ segir Herborg Svana Hjelm, en hún hefur sett á laggirnar ráðgjafar- og afleysingaþjónustuna Máltíð.

„Við hugsum okkur sem stoðdeild við mötuneyti. Það gefur auga leið að þegar tveir eða þrír starfsmenn afgreiða 600 börn í hádegismat alla daga gefst ekki mikill tími. Við bjóðum upp á næringarútreiknaða matseðla fyrir leik- og grunnskóla og komum inn í mötuneytin með ráðgjöf hvað varðar matarsóun. Markmiðið er að rannsaka hvað börn eru að borða, hvaðan maturinn kemur og að fá yfirsýn á hversu mikil matarsóun er í skólamötuneytum landsins,“ útskýrir Herborg.

Herborg Svana Hjelm, framkvæmdastjóri Máltíðar

Hún segir ferlið taka yfir tólf vikur. Fyrst fari fram greiningarferli í 6 vikur þar sem matseðlar eru í stöðugri þróun og svo taki við 6 vikna aðlögunarferli og fræðsla. Herborg segir rannsóknir sýna að hátt í 30 % af öllum mat í skólaeldhúsum endi í ruslinu. Það sé því til mikils að vinna að nýta hráefnið til fulls.

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur gefið það út að um 30 % matarsóun sé á öllu sem framleitt er á öllum framleiðslustigum. Út frá fjölda grunn- og leikskólabarna á Íslandi getum við áætlað að skóla- og leikskólamötuneyti afgreiði 21 milljón matarskammta á ári. Þetta þýðir þá að 6,3 milljónir matarskammta fara í ruslið. Ef okkur tækist að koma alveg í veg fyrri matarsóun mundi sparast um einn og hálfur milljarður í aðföngum á ári,“ segir Herborg.

Hvernig fer greiningarferlið fram?

„Við fylgjumst með hvað krakkarnir borða, vigtum hversu miklu er hent og skoðum hvað endar í ruslinu og hvað ekki. Ef við eru með soðinn fisk, kartöflur, rófur og gulrætur og sjáum að rófurnar enda að stórum hluta í ruslinu, þá þurfum við að finna eitthvað annað í staðinn. Við tölum við krakkana og spyrjum af hverju þau séu að henda og hvað þau vilji annað og stundum þarf lítið til að uppfylla þarfir þeirra. Þetta snýst ekki um einhverjar stórsteikur heldur um að börnin fái hollan og góðan mat sem þau vilja borða. Þau eru ekki kröfuhörð og stundum þarf bara aðeins meira krydd, olíu eða tómatsósu. Það er mjög gaman að vinna með þeim. Krakkar eru mjög hreinskilin um það sem þau vilja og vilja ekki.“ Að greiningarferli loknu er þróun matseðla lokið og aðlögunarferlið hefst. Herborg segir ekki síður mikilvægt að fræða bæði börnin og fullorðna um gildi næringar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur gefið það út að um 30 prósenta matarsóun sé á öllu sem framleitt er á öllum framleiðslustigum

Tækifæri fyrir íslenska framleiðendur

„Við bjóðum upp á fræðslu fyrir krakkana, starfsfólk skólanna og foreldrafélög, um mikilvægi þess að nærast rétt og að huga að náttúrunni í leiðinni. Það er sérstaklega mikil þörf á að huga vel að næringu barna nú á tímum covid. Hvað eru þau að borða og líður þeim vel? Ef þeim líður vel, þá borða þau betur og gengur betur í skólanum,“ segir Herborg. Þá sé mikilvægt að vita hvaðan maturinn kemur og upprunamerkja þurfi matinn á matseðlum.

„Hér felast stór tækifæri fyrir íslenska framleiðendur að framleiða mat sem börnin vilja. Ég sé fyrir mér að vera í samstarfi við þá og einblína á að kaupa íslenskt hráefni í matargerðina,“ segir Herborg og auðheyrt að henni er umhugað um málefnið.

„Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi í fimm til sex ár og er mér afar hugleikinn málaflokkur. Ég var rekstrarsérfræðingur skólamötuneyta Reykjavíkurborgar í nokkur ár og þá opnaði ég Matartímann með Sölufélagi Garðyrkjumanna. Ég er komin með teymi með mér í þetta nýsköpunarverkefni og vonandi verður nóg að gera. Þetta er fyrst og fremst þjónusta í þágu barnanna,“ segir Herborg en þess má geta að verkefnið er meðal tíu stigahæstu hugmynda í Gullegginu í ár, frumkvöðlasamkeppni Icelandic Startups.

Nánari upplýsingar er að finna á maltid.is





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×