Viðskipti innlent

Samherji bætir aftur við sig í Eimskip og gerir yfirtökutilboð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinsson er forstjóri Samherja. Vísir/Egill

Samherji Holding ehf., annar helmingur Samherjasamstæðunnar, hefur á ný eignast meira en 30 prósenta hlut í Eimskipafélagi Íslands og mun félagið gera yfirtökutilboð til allra hluthafa Eimskipafélagsins. Ekki er stefnt að afskráningu félagsins úr kauphöllinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu til kauphallar sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja undirritar. Þar er greint frá því að Samherji Holding hafi bætt við sig 2,93 prósent hlut í Eimskipi og þar með farið úr 27,35 prósenta hlut í 30,28 prósenta hlut.

Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti er Samherja Holding skylt að gera öðrum hluthöfum Eimskipafélagsins  yfirtökutilboð innan fjögurra vikna, en slík skylda myndast þegar aðili eignast að minnsta kosti 30 prósent atkvæðisréttar í félagi.

Óskuðu síðast eftir undanþágu

Þetta er því í annað sinn á árinu sem Samherji Holding fer yfir 30 prósenta hlut í Eimskipafélaginu en í mars var tilkynnt um að félagið hygðist gera öðrum hluthöfum Eimskipafélagsins tilboð, á sama grundvelli og nú. 

Samherji óskaði hins vegar skömmu síðar eftir undanþágu frá tilboðsskyldu í Eimskipafélagið, vegna aðstæðna á fjármálamarkaði í ljósi COVD-19, bæði hér á landi og erlendis. Fjármálaeftirlitið féllst á undanþáguna.

Áður en undanþágan var veitt hafði Samherji Holding þó losað sig við tilboðsskylduna með því að fara undir 30 prósenta hlut í Eimskipafélaginu. Félagið seldi þá 2,93 prósent hlut í Eimskipafélaginu og fór þá niður í 29,99 prósenta hlut.

Vilja Eimskip áfram á hlutabréfamarkaði

Í annarri tilkynningu til Kauphallar er haft eftir Þorsteini Má að tilgangur kaupanna nú sé að ljúka tilboðsskyldunni sem undanþága fékkst fyrir í mars. Kaupin endurspegli þá trú sem stjórnendur Samherja Holding hafi á rekstri Eimskips. 

„Eimskip er í meirihlutaeigu íslenskra lífeyrissjóða sem saman fara með rúmlega helming hlutafjár. Samherji Holding telur Eimskip vel til þess fallið að vera áfram skráð á almennan hlutabréfamarkað og stjórnendur Samherja Holding binda vonir við að eiga áfram gott samstarf við aðra hluthafa Eimskips.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ICESEA
3,35
35
557.020
BRIM
2,17
9
94.909
ARION
0,79
21
320.282
ORIGO
0,78
5
1.448
MAREL
0,56
21
235.696

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
SYN
-3,83
13
112.236
REGINN
-2,35
9
36.973
ICEAIR
-1,83
58
94.781
SIMINN
-1,6
26
743.684
VIS
-0,78
10
187.782
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.