Skoðun

Að læra að lifa með sorginni

Berta Guðrún Þórhalladóttir skrifar

„Mér hefur lærst að það er mikil fegurð í þessum heimi. Stundum þarf skelfilegan harmleik til að við sjáum það góða í lífinu – en það er þarna.” ~Ross

Lífið er vegferð þar sem við tökumst á við krefjandi verkefni sem geta verið allt frá jákvæðum upplifunum upp í hreint mótlæti. Flest okkar mæta mótlæti einhvern tímann á lífsleiðinni. Hluti af því að vera manneskja er að geta fundið til og við eigum það öll sameiginlegt að finna fyrir tilfinningum. Oft er talað um að sorgin og gleðin séu systur og að með því að leyfa okkur að finna sorgina getur það verið til þess að við munum finna fyrir enn meiri gleði seinna meir. Þegar við upplifum mótlæti þá getur það skipt máli að gefa sjálfum okkur rými til þess að vinna úr þeim sem getur síðan þroskað okkur sem manneskjur.

Við upplifum öll sársauka og gleði á mismunandi hátt. Að missa nákominn ástvin, foreldri, maka, barn eða systkini er eflaust eitt af stærri og erfiðari verkefnum lífsins. Missir er ekki eingöngu tengdur við það að einhver deyi, hann getur líka tengst veikindum, skilnaði, slysi eða öðru mótlæti. Við missi getum við upplifað erfiðar tilfinningar og sorgin getur komið yfir okkur eins og stór alda sem við höfum enga stjórn á. Sorgin er eðlilegt viðbragð okkar, þegar við missum eitthvað sem er okkur dýrmætt. Þegar við upplifum sorgina þá geta hugmyndir okkar um framtíðina þurrkast út á einu augnabliki, draumar og óskir orðið að engu. Allt sem við trúðum á og vonuðumst eftir getur horfið á einni nóttu. Dagleg verkefni sem áður voru auðveld verða ef til vill erfið, lífsneistinn getur minnkað, tómarúmið stækkað og lífið getur hreinlega orðið yfirþyrmandi.

Við getum upplifað sorgina á mismunandi hátt, sumir lýsa henni eins og lyftuferð, þú veist ekki alveg hvar þú stoppar á leiðinni. Stundum ferðu niður í stað þess að fara upp þótt þú hafir ætlað þér upp. Ferli sorgarinnar getur verið óútreiknanlegt og upplifum við öll sorgina á misjafnan hátt. En það að upplifað sorgina þarf ekki að vera neikvætt eða slæmt. Það getur dýpkað skilning okkar á lífinu og ef til vill gefið okkur nýja sýn á lífið. Þar getur hugmyndarfræði Jákvæðrar sálfræði hjálpað til við að sjá ljósið á nýjan hátt.

Hvað er jákvæð sálfræði?

Jákvæð sálfræði er vísindaleg nálgun innan sálfræðinnar þar sem áherslan er að rannsaka þá þætti sem stuðla að bættri vellíðan, velgengni og vexti fólks, hópa og stofnana. Jákvæð sálfræði spratt upp vegna mikils ójafnvægis innan sálfræðinnar, þar sem flestar rannsóknir voru gerðar á þáttum sem tengjast vanlíðan í stað þess að rannsaka þá þætti sem veita vellíðan. Mikil aukning hefur orðið á rannsóknum á þeim þáttum sem auka vellíðan síðastliðinn áratug. Þannig hefur fjölgað rannsóknum á hugtökum eins og bjartsýni, von og seiglu með það að markmiði að skilja hvernig við byggjum upp styrkleika, jákvæð samskipti, þrautseigju og vellíðan.

Jákvæð sálfræði er ekki áskrift á það að vera alltaf brosandi heldur er mikilvægt að gefa öllum tilfinningum rými, hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar. Til þess að komast í gegnum erfiðasta stig sorgarinnar er það einmitt mikilvægt að takast á við þessar erfiðu tilfinningar og leyfa þeim að flæða í gegnum líkamann í stað þess að birgja þær inni í sér eða að flýja þær.

Hvernig getur hugmyndfræði jákvæðrar sálfræði hjálpað þeim sem eru að syrgja?

Þegar við upplifum mikla vanlíðan eins og depurð þá getum við funduð til mikils vanmáttar, upplifað orkuleysi og haldið okkur til hlés. Þá er gott að koma sér upp ákveðnum auðveldum venjum eða athöfnum sem geta hjálpað til við að auka vellíðan. Vissulega getur það verið mjög krefjandi og erfitt, en það skilar árangri.

Innan jákvæðrar sálfræði hafa verið rannsakaðar aðferðir sem geta hjálpað til við auka vellíðan. Ein af þessum aðferðum er að skrifa dagbók um líðan sína, þú skrifar allt sem þú ert að hugsa og líka það sem þig langar að tala um en getur ekki talað um. Það er þó mikilvægt að vera ekki of mikið að hugsa um hvað skal skrifa heldur skrifa það sem kemur hér og nú. Fá flæðið til að koma hægt og rólega út án þess að vera að stjórna því hvað maður ætlar að skrifa. Með því að stunda þessa aðferð getum við hjálpað til við að losa um erfiðar tilfinningar og verið meðvitaðri um líðan okkar. Þetta hentar þó eflaust ekki öllum en þetta getur hjálpað við að minnka vanlíðan.

Önnur aðferð jákvæðra inngripa er að stunda hreyfingu sem þú hefur gaman að með það markmið að auka vellíðan. Það getur vissulega verið erfitt að finna sér eitthvað sem maður hefur gaman að þessa stundina en horfðu þá til baka og hugsaðu hvers konar hreyfing hefur veitt þér vellíðan í gegnum tíðina. Þetta þarf ekki að vera flókið t.d. göngutúr í náttúrunni, fara í ræktina eða jafnvel kveikja á upplífgandi tónlist og dansa er nóg til þess að örva vellíðanarhormón (endorphin) líkamans og losa í leiðinni um streituhormón (cortisol) sem hækkar þegar við erum undir miklu álagi. Með því að hleypa vellíðanarhormóni um líkamann þá minnkum við streitueinkenni og getum losað um sársaukaeinkenni sorgarinnar. Hreyfing getur einnig hjálpað til við að fá útrás fyrir tilfinningar eins og gremju sem getur safnast upp í sorgarferlinu.

Ásamt hreyfingu getur verið gott að stunda einhvers konar slökunar- eða hugleiðsluæfingar. Rannsóknir hafa sýnt að hugleiðsla getur hjálpað til við að vinna gegn kvíða, þunglyndi og takast á við erfiðar tilfinningar. Það er hægt að niðurhala forriti í símann sem leiðir þig í gegnum hugleiðsluferlið. Depurð getur einnig haft þau áhrif að einstaklingur haldi sig til hlés og þá er mikilvægt að finna sér aðila sem maður treystir og veitir manni öryggi.

Samvera er talin hjálpa við að létta lundina og getur einnig gefið einstaklingi tækifæri á að tala um þær erfiðu tilfinningar sem einstaklingur upplifir í sorgarferlinu. Það er þó ekki síður mikilvægt að leita til fagmanna eins og sálfræðinga sem hafa sérhæft sig í áföllum. Þá eru einnig til samtök fyrir þá sem hafa misst og það getur verið gott að leita til þeirra og fá reynslusögur frá öðrum sem hafa gengið í gegnum svipaðar aflraunir og maður sjálfur.

Höfundur er masternemi í Jákvæðri sálfræði, markþjálfi og þjálfari hjá World Class í Mosfellsbæ.

Greinin er skrifuð til að vekja athygli á 15. október sem er alþjóðlegur dagur tileinkaður missi á meðgöngu og barnsmissi.

Af því tilefni hefur Gleym-mér-ei ár hvert staðið fyrir minningarstund þar sem foreldrar, systkyni og aðstandendur hafa komið saman og átt ljúfa kvöldstund. Þetta árið urðum við, eins og aðrir sem standa fyrir viðburðum, að hugsa út fyrir boxið og finna leið til að færa stundina heim til ykkar.

Þann 15. októberklukkan 20:00 munu þau Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Karl Olgeirsson, Bubbi Morthens og Ragnheiður Gröndal flytja okkur nokkur hugljúf lög, meðal annars frumsamin lög í tilefni missis. Tónleikunum verður streymt á facebook síðu félagsins. Við hvetjum ykkur öll til að vera með okkur og tendra kertaljós í minningu barnanna okkar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×