Handbolti

Dujshebaev sendir Hauki fallega batakveðju

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Talant Dujshebaev er sleipur í íslensku.
Talant Dujshebaev er sleipur í íslensku. facebook-síða kielce

Eins og fram kom í gær sleit Haukur Þrastarson krossband í hné í leik Kielce og Elverum í síðustu viku og verður frá keppni næsta tæpa árið.

Á Facebook-síðu Kielce í dag birtust myndir af þjálfara og leikmönnum liðsins þar sem þeir óska Hauki góðs bata. Þeir halda á skilti með númeri Hauks (25) og skilaboðum á íslensku.

Meðal þeirra sem senda Hauki falleg skilaboð eru Talant Dujshebaev, þjálfari Kielce, og sonur hans og leikmaður liðsins, Alex Dujshebaev. Sigvaldi Guðjónsson sendir landa sínum og félaga í íslenska landsliðinu einnig batakveðjur.

Komunikat odno nie kontuzji Haukura Thrastarsona https://bit.ly/36ODSTx Jeste my z Tob "Haki" #gramyRAZEM #dawajDAWAJ

Posted by om a Vive Kielce on Tuesday, October 6, 2020

Haukur gekk í raðir Póllandsmeistara Kielce frá Selfossi í sumar. Þar á bæ virðast menn hafa mikla trú á honum en skömmu eftir komuna til Kielce skrifaði Haukur undir tveggja ára framlengingu á samningi sínum við félagið, án þess að hafa spilað leik fyrir það. Haukur er því samningsbundinn Kielce til 2025.

Haukur fer í aðgerð á Íslandi á næstu dögum og verður í endurhæfingu á Selfossi áður en hann snýr aftur út til Póllands.

Haukur ristarbrotnaði í sumar en var ótrúlega fljótur að ná sér og var orðinn klár áður en tímabilið hófst. Nú er hins vegar ljóst að hann leikur ekki meira með Kielce í vetur og þá missir hann af HM í Egyptalandi í byrjun næsta árs.

Haukur, sem er nítján ára, lék með íslenska landsliðinu á HM 2019 og EM 2020. Hann var valinn besti leikmaður EM U-18 ára fyrir tveimur árum þar sem Ísland endaði í 2. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×