Umfjöllun og viðtöl: Sel­­foss - FH 25-24 | Sel­foss aftur á beinu brautina

Hjörtur Logi Guðjónsson skrifar
Guðmundur Hólmar Helgason var flottur í liði heimamanna í kvöld.
Guðmundur Hólmar Helgason var flottur í liði heimamanna í kvöld. Hulda Margrét

Enn og aftur var hádramatískur leikur í Hleðsluhöllinni á Selfossi þegar heimamenn unnu eins marks sigur á FH, 25-24. 

Úrslitin réðust ekki fyrr en á lokasekúndunum og stigin hefðu getað skipst hvernig sem er á milli liðanna. Hergeir Grímsson og Guðmundur Hólmar voru markahæsti í liði Selfoss með sex mörk hvor, en í liði FH var það Ásbjörn Friðriksson sem var atkvæðamestur með átta mörk. Vilius Rasimas átti svo frábæran leik í marki Selfoss, en hann varði 15 skot, þar af þrjú víti.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og skiptust þau á að hafa forystuna. FH-ingar voru yfir fyrstu tíu mínúturnar en aldrei meira en einu marki. Selfyssingar tóku svo við og voru yfir næstu tæplega tíu mínútur, en eins og hjá FH var forystan aldrei meira en eitt mark.

Þegar um 22 mínútur voru búnar af leiknum náði FH loks tveggja marka forskoti 10:12. Dóri var ekki á því að hleypa sínu gamla liði lengra fram úr og tók leikhlé. Selfyssingar náðu aftur að jafna, og liðin skiptust á að sækja en varnir beggja liða stóðu vel.

Seinasta sókn hálfleiksins var Selfyssinga, en þeir fengu tækifæri til að koma sér yfir úr aukakasti þegar leiktíminn ver liðinn. Boltinn fór af veggnum og Phil Döhler varði. Liðin gengu því jöfn til búningsherbergja, 13:13.

Selfyssingar tóku öll völd fyrstu mínúturnar í seinni hálfleiknum og skoruðu fyrstu fimm mörk hálfleiksins. Sóknarleikur Selfyssinga var þá algjörlega til fyrirmyndar og Vilius Rasimas varði eins og óður maður.

Smátt og smátt unnu FH-ingar sig aftur inn í leikinn, og með mikilli þolinmæði undir klókri stjórn Ásbjörns Friðrikssonar á miðjunni minnkuðu FH-ingar forskot Selfyssinga.

Þegar um korter var eftir af leiknum var FH búið að minnka muninn í tvö mörk, 21:19. Þá tók Dóri leikhlé fyrir Selfyssinga, en áfram héldu FH-ingar að saxa á.

Þegar tæpar 53 mínútur voru á klukkunni náði FH loksins að jafna aftur, 22:22, og staðan hélst jöfn út leiktíman. Nökkvi Dan kom Selfoss í 25:24 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir, og þá tóku við virkilega spennandi lokamínútur.

FH tók leikhlé þegar um 35 sekúndur voru eftir til að setja upp lokasóknina, sem fór þó ekki betur en svo að Magnús Öder stal boltanum. Dóri tók þá sitt seinasta leikhlé þegar 13 sekúndur voru eftir til að róa sína menn og setja upp hvernig þeir ætluðu að klára klukkuna. Nökkvi Dan var þá kærulaus með boltann og lét stela honum af sér þegar um sex sekúndur voru eftir og FH brunuðu fram. Selfyssingar náðu að brjóta og FH-ingar vildu fá víti og rautt spjald. Dómarar leiksins dæmdu þó aðeins aukakast og Vilius Rasimas varði frá Ásbirni og eins marks sigur Selfoss því staðreynd.

Af hverju vann Selfoss?

Enn og aftur er erfitt að benda á eitthvað eitt sem varð til þess að sigur vannst í Hleðsluhöllinni. Selfyssingar byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og hefðu með smá útsjónasemi kannski getað kæft leikinn. Vilius Rasimas á þó stóran þátt í sigri Selfyssinga með ótal vörslum í hraðaupphlaupum og þrjú varin víti.

Hverjir stóðu upp úr?

Eins og áður hefur komið fram átti Vilius Rasimas mjög góðan leik í marki Selfyssinga. Hann átti það þó til að missa bolta inn sem að mögulega hann hefði átt að verja, en átti fullt af risa vörslum úr hraðaupphlaupum, vítum og öðrum dauðafærum.

Í liði FH var það Ásbjörn Friðriksson sem var hvað bestur, ekki í fyrsta skipti, og líklega ekki það síðasta. Hann stýrði sóknarleiknum vel og er alveg ótrúlega klókur leikmaður.

Hvað gekk illa?

Bæði lið tóku kafla í leiknum þar sem að þau áttu mjög marga tapaða bolta. Einnig átti FH oft á tíðum erfitt með að brjóta niður varnarleik Selfyssinga, og þurftu þá að spila mjög langar sóknir og taka skot undir pressu þegar höndin var komin upp hjá dómurunum.

Hvað gerist næst?

Selfyssingar fara í Breiðholtið á mánudaginn eftir 10 daga þar sem að þeir mæta ÍR. ÍR-ingar hafa tapað sínum fyrstu þrem leikjum og þetta er leikur sem Selfoss á að vinna.

FH fá Gróttu í heimsókn í næstu umferð. Grótta hefur tapað tveim og gert tvö jafntefli og eins og hjá Selfoss er þetta leikur sem FH býst við að vinna, sérstaklega á heimavelli.

Halldór Jóhann Sigfússon tók við Selfossi í sumar.Selfoss

Halldór: Þetta er auðvitað sérstakur leikur

„Í fyrsta lagi bara frábær sigur, svona vinnusigur,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss eftir leikinn í kvöld. 

„Við spilum frábæra vörn í 60 mínútur, sérstaklega í seinni hálfleik þar sem við fáum bara á okkur 11 mörk á móti mjög erfiðu liði, afar klókt FH lið og Ási náttúrulega bara eins og maður sá tekur yfir bara þegar hann þarf að taka yfir en ég er hrikalega stoltur af mínu liði að klára þetta, við komust fimm mörkum yfir og lendum þá í svona smá. Einar meiðist aðeins og við þurftum aðeins að endurskipuleggja okkur en virkilega sætt hérna í lokin en ég hefði ekki viljað fá þessa síðustu sókn á mig en það er bara gott að landa þessu.“

Halldór var algjörlega meðvitaður um það að hann væri að mæta sínu gamla liði og það gerði sigurinn jafnvel enn sætari. 

„Þetta er auðvitað sérstakur leikur, ég var fimm frábær ár í Kaplakrika þar sem ég kynntist frábæru fólki og nánast allir leikmennirnir sem spiluðu hérna spiluðu undir minni stjórn og marga fékk ég til félagsins. Auðvitað er þetta alltaf sérstakt en ég vildi vinna þennan leik, það er ekki spurning og strákarnir svöruðu fyrir frekar dapran leik hjá okkur í síðustu viku og það er gríðarlega gott fyrir okkur að komast aftur á strik og sækja tvö stig, það er það sem telur í þessu, að fá sem flest stig. Þessi tvö stig verða allavega ekki tekin af okkur.“

Selfyssingar komust í fimm marka forskot snemma í seinni hálfleik, en náðu ekki að byggja á því forskoti. 

„Það vantar bara svona aðeins klókyndi hjá okkur á þeim kafla, kannski aðeins að ná að hægja leikinn þegar við vorum ekki að skora úr seinni bylgju en við vorum að skora úr bara góðum uppstilltum sóknarleik og þá þarf bara aðeins að róa leikinn niður og gefa okkur tíma og nýta okkur þau klókyndi sem við höfum af því að við vissum að FH myndi gera það, þeir finna lyktina af því að geta komist inn í leikinn og þeir gera það vel. Á þessum kafla, í staðin fyrir að vera kominn í fimm mörk fá sjötta markið, sama hversu ógeðslegt það er, sama hvað það tekur langan tíma og svo sjöunda. Við lendum svo í því að tapa tveimur ódýrum boltum og þetta er komið í þrjú mörk og þá er þetta aftur leikur.“

Einar Sverrisson fór meiddur af velli í seinni hálfleik, ein Halldór vissi þó ekki hvort það væri alvarlegt. 

„Ég myndi segja bara að hann væri búinn í dag og mér sýndist hann eitthvað skrika fótur og fengið eitthvað í nárann, það verður bara að koma í ljós á næstu dögum og þá verður bara næsti maður að koma inn, við erum með leikmenn sem spiluðu ekki í dag og þeir verða þá bara að koma og klára verkefnið,“ sagði Halldór Jóhann að lokum.

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH.Skjáskot

Sigursteinn: Ég átta mig ekki á þessari reglu hérna á síðustu mínútu

„Ég er bara gríðarlega svekktur að ná engu út úr þessum leik, en þetta er bara niðurstaðan,“ sagði Sigursteinn Arndal, þjálfari FH eftir tapið í kvöld.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik, en Selfyssingar komu í fluggír inn í þann seinni og komust fljótt í fimm marka forskot. Sigursteinn hélt þó ró sinni á þeim kafla. 

„Nei, nei, þetta var bara vondur kafli hjá okkur og ég var ósáttur með það, en að sama skapi var ég sáttur með hvernig við unnum okkur bara inn í þetta og við vorum búnir að koma okkur í stöðu til að taka eitthvað út úr leiknum en það gekk ekki.“

FH fékk nokkur tækifæri til að jafna leikinn í lokinn, en Selfoss tapaði svo boltanum þegar um sex sekúndur voru eftir og brjóta síðan á FH til að stoppa sóknina. Sigursteinn ætlaði þó ekki að fara að setja sig í stöðu dómara varðandi það atvik. 

„Við ætluðum okkur að vinna boltann og það gekk eftir. Svo gerist eitthvað sem ég bara hef ekki nógu mikið vit á , ég verð bara að viðurkenna það, ég átta mig ekki á þessari reglu hérna á síðustu mínútu,“ sagði Sigursteinn.

Svipað atvik átti sér stað í leik Fram og Aftureldingar í annarri umferð og þar var dæmt rautt spjald og víti, eitthvað sem Sigursteinn hefði glaður viljað sjá gerast hér í kvöld. 

„Já, ég hefði klárlega viljað sjá eitthvað svoleiðis en dómararnir mátu það svo að það væri ekki. Ég bara legg áherslu á það að ég átta mig bara ekki á hvað ég á að leggja upp með mína leikmenn á stundum sem þessum, ef ég væri í vörn og þvíumlíkt, hvað á að gera á þessum síðustu sekúndum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira