Viðskipti innlent

Kröfuhafar Jóa Fel hafa tvo mánuði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jói Fel var árum saman til húsa í Holtagörðum. Þar hefur Bakarameistarinn nú opnað útibú.
Jói Fel var árum saman til húsa í Holtagörðum. Þar hefur Bakarameistarinn nú opnað útibú. Vísir/Vilhelm

Skiptastjóri í þrotabúi bakarískeðjunnar Jóa Fel skorar á alla sem telja sig eiga inni fé, réttindi eða eignir í búinu að lýsa kröfum sínum í búið á næstu tveimur mánuðum. Skiptafundur er fyrirhugaður 4. desember en skiptastjóri er Grímur Sigurðsson. Þetta kemur fram í Lögbirtingablaðinu í dag.

Bakarísrekstur Jóa Fel var úrskurðaður gjaldþrota á fimmtudaginn í síðustu viku að kröfu Lífeyrissjóðs verzlunarmanna. Krafan um gjaldþrot var lögð fram á grundvelli vangoldinna iðgjalda. Þau hafi verið innheimt af launum starfsfólks en ekki skilað til sjóðsins. Þá mun fyrirtækið ekki hafa greitt mótframlag af launum starfsfólks til lífeyrissjóðsins.

Bakarameistarinn keypti á dögunum stærstan hluta eigna úr þrotabúinu og hefur opnað tvö útibú Bakarameistarans í Holtagörðum og Spönginni, þar sem áður voru bakarí Jóa Fel. Jói Fel og fjárfestar reyndu samkvæmt heimildum Vísis sjálfir að kaupa eignirnar en tilboð þeirra var lægra en Bakarameistarans.

„Kröfulýsingar skulu sendar skiptastjóra að Borgartúni 26, 105 Reykjavík, c/o Landslög slf.

Skiptafundur til að fjalla um skrá um lýstar kröfur og ráðstöfun á eignum og réttindum búsins verður haldinn á skrifstofu skiptastjóra að Borgartúni 26, Reykjavík, á ofangreindum tíma,“ segir í tilkynningunni í Lögbirtingablaðinu.

„Komi ekkert fram um eignir í búinu mun skiptum lokið á þeim skiptafundi með vísan til 155. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Skrá um lýstar kröfur mun liggja frammi á skrifstofu skiptastjóra síðustu viku fyrir skiptafundinn.“


Tengdar fréttir

Bakarameistarinn í stað Jóa Fel

Bakarískeðjan Bakarameistarinn ehf. hefur keypt stærstan hluta af þrotabúi Jóa Fel. Stefnir keðjan á að opna tvö útibú, í Holtagörðum og Spönginni, á næstu dögum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×