Viðskipti innlent

Öllum starfsmönnum Isavia í Vestmannaeyjum sagt upp

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Um er að ræða þrjá starfsmenn.
Um er að ræða þrjá starfsmenn. Vísir/Vilhelm

Öllum starfsmönnum Isavia í Vestmannaeyjum hefur verið sagt upp. Frá þessu greinir staðarmiðillinn Eyjar.net og vísar í Ingiberg Einarsson, rekstrarstjóra flugvallarins í Vestmannaeyjum. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, hefur staðfest þetta í samtali við Vísi.

Um er að ræða þrjá starfsmenn með þriggja til sex mánaða uppsagnarfrest. Í samtali við Vísi segir Guðjón að starfsfólkinu verði boðin vinna í lægri starfshlutfalli.

Auk þess muni fara fram ítarleg greining á notkun vallarins með starfsfólki. Áætlað er að þeirri greiningu verði lokið í októbermánuði.

„Frá því mánaðamótin ágúst/september hefur ekkert áætlunarflug verið til Vestmannaeyja, eða frá því Flugfélagið Ernir hætti að fljúga þangað. Völlurinn er því eingöngu notaður af flugnemum, einkaaðilum og í sjúkraflug. Að óbreyttu blasir við að opnunartími er of langur og mönnun of mikil með tilliti til rekstrarlegs grundvallar,“ segir Guðjón.

Þá segir Guðjón að Isavia voni að ástandið sé tímabundið, en miðað við núverandi stöðu hafi verið nauðsynlegt að ráðast í uppsagnirnar.

Þungur róður í innanlandsflugi

Í upphafi þessa mánaðar tilkynnti flugfélagið Ernir um ákvörðun sína að hætta flugi til og frá Vestmannaeyjum. Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins, sagði þá ákvörðunina ekki hafa komið til af góðu en reksturinn á innanlandsflugmarkaði væri afar þungur um þessar mundir.

Þá sagði hann erfitt að keppa við niðurgreiddan bát á samgöngumarkaði, og vísaði þar til siglinga Herjólfs milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar.

Fréttin var uppfærð klukkan 18:22.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×