Viðskipti innlent

Sum fyrirtæki verði að víkja

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, ræddi áhrif kórónuveirufaraldursins í Sprengisandi í morgun. 
Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, ræddi áhrif kórónuveirufaraldursins í Sprengisandi í morgun.  Vísir

Hinn kaldi veruleiki er sá að bankarnir þurfa að taka afstöðu til þess hvaða fyrirtæki verður hægt að aðstoða í gegnum kórónuveirukreppuna og hver ekki. Fyrir liggi að sum fyrirtæki þurfi að setja í þrot. Þetta segir Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika.

„Það góða við Covid-kreppuna er að það hefur ekkert skemmst. Það eru hótelin, vegakerfið, flugvellirnir og allt er hér til staðar. Ef Covid fer í burtu á morgun eru allar forsendur til þess að allt fari af stað aftur,“ sagði Gunnar í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Gunnar segir stjórnvöld hafa tekist nokkuð vel á við faraldurinn en að nú þurfi bankarnir að íhuga næstu skref.

„Núna þurfa bankarnir svolítið að fara að skoða það hvaða fyrirtæki þarf að afskrifa hjá eða lengja í. Ef þau eru með góð veð, eins og fasteignir, að þá er hægt að lengja í því um 12 til 18 mánuði og þegar við erum komin í gegnum þetta að þá ertu í rauninni að borga þetta lengur inn í framtíðina en atvinnutækin og hagkerfið er til staðar,“ sagði Gunnar.

Sum fyrirtæki verði einfaldlega að víkja. 

„Það er hinn kaldi veruleiki og þá þarf svolítið að velta fyrir sér hvaða fyrirtæki voru lífvænleg áður en Covid skall á og þeim verður kannski hjálpað svolítið í gengum þennan skafl. En hinum fyrirtækjunum, þó það sé hart að segja það, að þá náttúrlega einhver fyrirtæki sem verða að fara í þrot. Og ekki bara því þau hafa staðið illa heldur skekkir það alla samkeppni að hafa fyrirtæki sem eru kannski illa fjármögnuð, illa rekin, standa ekki undir því viðskiptamódeli sem þau hafa lagt af stað með. Og þá þurfa þau fyrirtæki, því miður, að víkja. En vonandi verður það minnihlutinn.“

Hlusta má á viðtalið í heild í spilaranum hér fyrir neðan.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×