Atvinnulíf

120 fjallstoppar, Landvættir og fjögur börn á sjö árum

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri Distica.
Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri Distica. Vísir/Vilhelm

Júlía Rós Atladóttir framkvæmdastjóri Distica hefur það markmið í vinnunni að um 25% af vinnutímanum fari í umbætur og ný tækifæri. Utan vinnu er markmiðið að komast á 120 fjallstoppa árið 2020. Skipulagið liggur í Outlook og OneNote en án þeirra myndi ekkert gerast. 

Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf hvenær fólk vaknar á morgnana, hvað er það fyrsta sem það gerir þá og hvenær fer fólk að sofa. Við spyrjum líka um skipulagið og helstu verkefni.

Hvenær vaknar þú á morgnana?

„Ég er morgunhani og vakna uppúr klukkan sex á morgana.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?

„Ég vakna í rólegheitunum, fæ mér morgunmat og te, kíki á tövlupóstinn og skipulegg vinnudaginn.

Klukkan sjö sjö byrjum við maðurinn minn að vekja börnin okkar fjögur, það getur tekið sinn tíma. 

Annars verða morgnarnir að meiri gæðastundum eftir því sem börnin eldast. Ég er mætt á skrifstofuna milli átta og níu.“

Hafa áhugamál eða tómstundir eitthvað breyst í kjölfar Covid?

„Ég hef alltaf haft gaman af utandyra hreyfingu, ég eignaðist fjögur börn á sjö árum og þá var ekki mikill tími til að sinna áhugamálinu. En núna þegar krakkarnir eru orðnir 10-17 ára þá er ég alveg heltekin af fjallgöngum.

Í fyrra fór ég 100 sinnum á fjallstopp og markmiðið er 120 sinnum á þessu ári. Síðan vorum við sjö vinkonur að skrá okkur í Landvætti, þannig að nú hafa utanvegahlaup og utanvegahjól bæst við og svo koma skíðin og sundið inn síðar í vetur.“

Á Hornströndum en Júlía segist heltekin af fjallgöngum og skráði sig nýverið í Landvætti með vinkonum.

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?

„Þegar þú starfar á heilbrigðismarkaði þá óhjákvæmlega hefur COVID einkennt það sem af er af árinu, starfsfólk Distica hefur staðið sig framúrskarandi vel í að tryggja nægar birgðir af lyfjum og lækningatækjum í landinu.

Distica er á þjónustuvegferð svo mikið af mínum tíma fer í að ræða þjónustu Distica við viðskiptavini okkar og gera umbætur á ferlum okkar til að bæta þjónustu.“

Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?

„Ég er mjög skipulögð, líf mitt er í outlook, ef það er ekki í outlook eða one note þá mun það ekki gerast. Við stjórnendur Distica höfum verið að reyna að draga lærdóm af COVID, við sáum í COVID heimavinnunni að við höfðum meira svigrúm til að sinna umbótum, við erum því með fasta COVID vinnudaga þar sem við vinnum heima og vinnum bara að umbótum.

Einnig höfum við ákveðið að halda okkur við að hafa suma fundi á Teams og gerðum það þegar COVID var í lægð og munum halda því áfram eftir COVID. 

Markmið mitt er að eyða að minnsta kosti 25% af tíma mínum í umbætur og ný tækifæri.“

Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?

„Ég er alveg handónýt á kvöldin, morgnarnir eru minn tími. Ég er orðin þreytt uppúr klukkan níu á kvöldin en held mér vakandi til klukkan tíu svo ég fái nú einhvern tíma með eiginmanninum.“


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×