Handbolti

Haukur fljótur af stað eftir ristarbrot

Sindri Sverrisson skrifar
Haukur Þrastarson er byrjaður að spila með stórliði Kielce.
Haukur Þrastarson er byrjaður að spila með stórliði Kielce. vísir/getty

Haukur Þrastarson var í leikmannahópi pólska stórliðsins Kielce í kvöld þegar það vann Pogon og er því kominn á ferðina eftir að hafa ristarbrotnað í sumar.

Um var að ræða leik í 2. umferð pólsku úrvalsdeildarinnar og vann Kielce 37-22 stórsigur. Pogon hafði komið mjög á óvart í 1. umferð með 26-24 sigri á Wisla Plock, en Kielce vann þá Wybreze Gdansk 34-25.

Haukur segir í samtali við Ívar Benediktsson á handbolti.is að endurhæfing sín hafi „gengið vonum framar“ og hann sé því orðinn leikfær með sínu nýja liði. Landsliðsmaðurinn ungi gekk í raðir Kielce frá Selfossi í sumar.

Haukur fór í aðgerð vegna ristarbrotsins í júlí og sagði þá við Vísi að hann mætti búast við því að vera frá keppni í þrjá mánuði. Þeir urðu þó ekki nema tveir.

Haukur spilaði hins vegar lítið í kvöld og átti aðeins eitt skot í leiknum, og það fór ekki á markið. Landsliðshornamaðurinn Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvö mörk fyrir Kielce en Arkadiusz Moryto var markahæstur í liðinu með sjö mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.