Viðskipti innlent

Lög­regla inn­siglar Tjöru­húsið á Ísa­firði

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Tjöruhúsið á Ísafirði er einn vinsælasti veitingastaður Vestfjarða.
Tjöruhúsið á Ísafirði er einn vinsælasti veitingastaður Vestfjarða. Vísir/vilhelm

Lögreglan á Vestfjörðum lokaði og innsiglaði veitingastaðinn Tjöruhúsið á Ísafirði í umboði Ríkisskattstjóra í gær. 

„Það barst erindi til lögreglu um aðstoð við þessa aðgerð. Beiðnin kemur frá Skattinum,“ segir Hlynur Snorrason yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vestfjörðum í samtali við Vísi. Hann geti að öðru leyti ekki tjáð sig frekar um málið, sem sé á ábyrgð Ríkisskattstjóra.

Á innsigli lögreglu á Tjöruhúsinu segir að staðurinn sé innsiglaður „vegna vangoldinna opinberra gjalda“.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Tjöruhúsinu er lokað með lögregluinnsigli. Það var gert árið 2013 í umboði Ríkisskattstjóra, sem beitti þar heimild til þess í fyrsta sinn. Eigendur Tjöruhússins gagnrýndu í kjölfarið starfsmenn embættisins fyrir að hafa ekki rofið innsiglið eftir að búið var að gera upp kröfu um greiðslu opinberra gjalda.

Ekki náðist í Magnús Hauksson eiganda Tjöruhússins við vinnslu fréttarinnar. Magnús var dæmdur til sex mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar og til greiðslu 39 milljóna króna sektar vegna skattsvika árið 2015. Þá var hann einnig sakfelldur og dæmdur til refsingar vegna brota gegn skattalögum árin 1998 og 2005.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×