Viðskipti innlent

Guð­mundur nýr stjórnar­for­maður CRI

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Þóroddsson hefur gegnt stöðu forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Geothermal, þar sem hann er nú stjórnarformaður.
Guðmundur Þóroddsson hefur gegnt stöðu forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Geothermal, þar sem hann er nú stjórnarformaður. CRI

Guðmundur Þóroddsson er nýr stjórnarformaður íslenska tæknifyrirtækisins Carbon Recycling International (CRI) en aðalfundur félagsins fór fram undir lok nýliðins ágústmánaðar.

Auk Guðmundar komu Ásgeir Ívarsson og Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir ný inn í stjórn, en fyrir í stjórn voru þau Fiona Xiang Fei, Ingólfur Guðmundsson og Laurent Van Wulpen.

Í tilkynningu frá CRI segir að Guðmundur sé reyndur stjórnandi og hafi meðal annars gegnt stöðu forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavík Geothermal, þar sem hann er nú stjórnarformaður. Þau Ásgeir og Margrét hafi bæði gegnt lykilhlutverkum hjá CRI sem stjórnendur á sviði tækni og fjármála.

„CRI hlaut í síðustu viku viðurkenningu Vaxtarsprotans annað árið í röð, en velta fyrirtækisins jókst um 78% milli ára. Vaxandi áhugi er fyrir tæknilausnum félagsins enda er nú verið að setja aukna fjármuni í að draga úr losun koltvísýrings um allan heim. Félagið er í forystu á heimsvísu í þróun tækni til nýtingar koltvísýrings við framleiðslu rafeldsneytis og efnavöru.

CRI vinnur nú að hönnun verksmiðju samkvæmt samningi við efnafyrirtæki í Kína sem byggð er á skölun á þeirri tækni sem fyrst var nýtt í verksmiðju félagsins í Svartsengi. Verkefnið er staðsett í Anyang í austurhluta Kína og mun það koma til með að draga úr losun á 160.000 tonnum af koltvísýringi árlega. Heildarfjarfesting í verkefninu nemur um 12 milljörðum króna og er gert ráð fyrir að gangsetning hefjist á síðari hluta næsta árs,“ segir í tilkynningu.

Carbon Recycling International - CRI hf. er íslenskt nýsköpunarfyrirtæki sem þróar, hannar og afhendir búnað til að framleiða endurnýjanlegt eldsneyti og vistvæna efnavöru, úr kolefni og vetni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×